Haukar leika til úrslita eftir öruggan sigur á Fram

Lokatölur á Ásvöllum í dag, 30-21 Haukum í vil gegn Fram í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótins. Eins og tölurnar gefa til kynna var um öruggan sigur að ræða. 

Það var vel mætt á völlinn Haukamegin en ekki er hægt að segja það sama Frammegin, en þar var hálftómlegt. Og stemmingin því mun meiri hjá Haukum allan leikinn.

Með sigrinum tryggðu Haukar sér farseðilinn í úrslitin og mæta þar Valsmönnum en fyrsti leikurinn í úrslitunum er á mánudaginn, á Ásvöllum og hefst leikurinn kl. 19:45.

Það var Einar Örn Jónsson sem skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Hauka en Framarar jöfnuðu. Í stöðunni 2-2 skoruðu Haukar þrjú mörk í röð og virtist sem að Haukar væru að fara keyra yfir Framarana. En gestirnir náðu að minnka muninn í 6-5 en þá tók meistari Aron Kristjánsson þjálfari Hauka leikhlé og það greinilega gerði sitt gagn því Haukar skoruðu þá sex mörk á móti einu marki Framara og breyttu stöðunni í 12-6.

Haukarnir héldu því forskoti til hálfleiks og staðan í hálfleik var 16-10 Haukum í vil. Birkir Ívar varði vel í fyrri hálfleik og Sigurbergur Sveinsson var búinn að skora sex mörk.

Haukarnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin í hálfleiknum og komnir með átta marka forskot, Viggó Sigurðsson var rólegur á bekknum og settist á Húsasmiðjukollinn og horfði á leikinn þar sem eftir var með fjölmarga Hauka áhorfendur fyrir aftan sig sem studdu sitt lið vel allan leikinn.

Lærisveinar Viggós og Einars Jónssonar voru gjörsamlega niðurlægðir inn á vellinum í dag og náðu Haukar tíu marka forystu eftir 40 mínútna leik, 22-12. Tólf mörk á fjörtíu mínútum, þetta minnir mann bara á Haukar – FH í deildinni á Ásvöllum.

Haukarnir héldu sínu striki og ætluðu greinilega ekkert að gefa eftir og héldu þessari forystu út leikinn eða svo, níu marka sigur staðreynd 30-21.

Birki Ívar Guðmundsson var besti leikmaður vallarins með 20 skot varin en Gísli Guðmundsson spilaði síðustu mínúturnar í leiknum og varði 2 bolta.

Í sóknarleiknum var Sigurbergur Sveinsson markahæstur með 7 mörk, Einar Örn Jónsson og Elías Már Halldórsson gerðu fimm mörkin hvor, Freyr Brynjarsson var með fjögur mörk, leikstjórnandinn Andri Stefanv var með þrjú mörk, Haukamennirnir Arnar Pétursson og Kári Kristján Kristjánsson gerðu tvö mörk hvor og unglingarnir Tjörvi Þorgeirsson og Gunnar Berg Viktorsson gerðu eitt markið hvor.

Við minnum Haukafólk á að fjölmenna á úrslitaleikina gegn Val, en bæði leikmenn, þjálfarar, stjórnin og að sjálfsögðu stuðningsmenn erum staðráðin að taka stóra titilinn. 

Áfram Haukar.

Mynd: Birkir Ívar var í miklum ham í leiknum í kvöld og varði yfir 20 boltastefan@haukar.is