Haukar mæta Breiðablik

Haukar mæta Breiðablik, í næst síðasta leik deildarkeppi 1. deildar, á morgun föstudag þegar grænir koma í heimsókn í Schenker-höllina. Breiðablik vann síðasta leik þessara liði í Smáranum en síðan þá hafa Haukastrákar ekki tapað leik í deildinni og hafa verið á ótrúlegu flugi.

Möguleikar Hauka á að fara beint upp í úrvalsdeild eru enn til staðar en til þess þarf liðið að vinna sína leiki og vonast eftir hagstæðum úrslitum úr leik Vals og Hamars sem fer fram á sunnudaginn. Það dugar Haukum að vera jafnt að stigum og Valur þar sem að Haukar eiga innbyrðis viðureignina á Val og Hamar er svo tveimur stigum á eftir Haukum í þriðja sæti deildarinnar.

Haukar eiga eftir, eins og fram hefur komið, tvo leiki. Fyrri leikurinn gegn Breiðablik í Schenker-höllinni á morgun og svo gegn Hetti á Egilsstöðum á föstudaginn eftir viku. Það er því um að gera að taka föstudagskvöldið frá, mæta í Schenker og horfa á það sem gæti mögulega verið síðasti heimaleikur liðsins á þessu tímabili.

Grillið verður á sínum stað frá kl. 18:30 þar sem Gunni verður með safaríka borgara fyrir þá sem svangir eru.