Haukar – Njarðvík föstudag kl. 19:15

hjalmarGrænklæddir Njarðvíkingar koma í heimsókn í Schenkerhöllina í kvöld, föstudaginn 11. desember, og hefst leikurinn á slaginu kl. 19:15.

Haukarnir hafa verið á ágætis skriði síðustu vikur og unnið síðustu tvo leiki í deildinni og svo einn í bikarnum. Nú er komið að Njarðvíkingum og er leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Haukarnir geta með sigri haldið pressu á toppliðin tvö og jafnvel náð þeim að stigum í efsta sæti ef úrslit verða hagstæð í öðrum leikjum, en strákarnir eru einungis einum leik frá toppsætinu.

Njarðvíkingar þurfa nauðsynlega á sigri halda eftir tvo tapleiki í röð. Þeir munu því væntanlega mæta grimmir til leiks en með sigri geta þeir jafnað Hauka að stigum.

Það er því ljóst að um toppleik er að ræða og því hvetjum við alla til að mæta á leikinn, mæta í rauðu og styðja strákana til sigur.

Eftir fyrsta leikhluta verður smá viðburður þar sem kkd mun heiðra „gamlan“ leikmann og því hvetjum við fólk til að mæta snemma og taka þátt í gleðinni. Auðvitað verða grillaðir „Gunna hamborgarar“ fyrir leik.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á stöð2 sport.