Haukar mættu Keflavík í áttundu umferð Domino’s deildarinnar í gærkvöld. Haukaliðið var langt frá sínu besta í fyrri hálfleik en sýndu klærnar í þeim seinni. Það dugði þó ekki og sigruðu gestirnir með fimm stigum 63-68.
Haukar sá alls ekki til sólar í fyrri hálfleik og voru 14 stigum undir í hálfleik 29-43. Haukur Óskarsson var drjúgur fyrir Hauka í hálfleiknum og forðaði Haukaliðinu frá því að vera ekki meira undir en raun bar vitni. Keflvíkingar komu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og keyrðu muninn upp í 21 stig. Ívar Ásgrímsson tók þá leikhlé og Haukar skiptu í svæðisvörn. Sú vörn virtist virka vel fyrir Haukaliðið og jafn og þétt minnkuðu Haukar muninn með Hauk Óskars í fararbroddi.
Haukar náðu að minnka muninn í eitt stig undir lokinn og voru hársbreidd frá því að stela sigrinum. Keflvíkingar héldu hins vegar út og unnu að lokum 63-68.
Haukur Óskars var virkilega drjúgur fyrir Haukaliðið og skoraði meira en helming stiga Hauka. Hann setti niður 32 stig í leiknum og komu 27 þeirra úr þriggja stiga skotum. Terrence Watson smellti niður 15 stigum og tók 17 fráköst en hann þurfti að yfirgefa völlinn með 5 villur þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og munaði um minna fyrir Haukaliðið.
Næsti leikur liðsins er gegn Snæfelli á sunnudagskvöldið þegar liðin mætast í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins.
Tengdar fréttir:
Keflavík stóð af sér síðbúna atlögu Hauka
Myndasafn úr leiknum
Keflavík hélt út gegn Haukum