Haukar hafa náð samkomulagi við DB Schenker um áframhaldandi samstarf aðila. Mun því íþróttamiðstöð Hauka að Ásvöllum áfram bera nafn Schenker, Schenker-Höllin fyrir íþróttahúsið að Ásvöllum og Schenker-Völlurinn, fyrir knattspyrnuvöll félagsins.
Haukar hafa lagt mikla áherslu á að sinna sem best þjónustu í sínu nærsamfélagi sem rímar vel við alþjóðlega stefnu DB Schenker. Innan Hauka geta ungir sem aldnir fundið sér vettvang til æfinga eða annarar félagslegrar afþreyingar. Samstarfssamningar sem þessir eru Haukum ákaflega mikilvægir þar sem opinber stuðningur við íþróttahreyfinguna er því miður, oftar en ekki, af skornum skammti.
DB Schenker er annað tveggja stærstu flutningsmiðlunarfyrirtækja heims. DB Schenker hefur vaxið ört á íslenskum flutningamarkaði undanfarin ár, en skrifstofa félagsins á Íslandi er ein af 2000 starfstöðvum í 130 löndum. Skrifstofur félagsins á Íslandi og vöruhúsaþjónusta er í Hafnarfirði. DB Schenker býður upp á heildarlausnir í flutningum, með safnsendingum og heildarfarmflutningum, hvaðanæva að úr heiminum, í þéttofnu flutninganeti félagsins.
Stjórn knattspyrnufélagsins Hauka fagnar öflugum stuðningi DB Schenker við Hauka sem rennir enn styrkari stoðum undir rekstur félagsins.
Frekari upplýsingar veitir Magnús Gunnarsson framkvæmdarstjóri Hauka.