Knattspyrnudeild Hauka og skoska félagið Glasgow City hafa gert með sér samkomulag um samstarf félaganna. Samkomulagið felur m.a. í sér tækifæri fyrir leikmenn og þjálfara til þess að kynnast starfsemi hvors annars og þróa þannig þekkingu sína og færni.
Glasgow City Football Club er knattspyrnulið fyrir konur og stúlkur og spilar liðið í efstu deild í Skotlandi. Félagið er sigursælt og hefur margsinnis hampað skoska meistaratitlinum. Árangur liðsins í Meistaradeild Evrópu hefur verið góður undanfarin misseri og í haust sló liðið m.a. lið Vals út úr keppninni eftir vítaspyrnukeppni.
Glasgow City og Haukar deila sambærilegum gildum í íþróttum og trúa á þróun ungra leikmanna og fagnar Helga Helgadóttir, yfirþjálfari knattspyrnudeildar Hauka, samkomulaginu. ,,Haukar eiga marga efnilega leikmenn og opnar samstarf sem þetta á möguleika fyrir þá að reyna sig á stærra sviði. Við hlökkum til að kynnast starfi Glasgow City betur, læra af þeim en ekki síður deila okkar reynslu og þekkingu“.