Haukar hófu keppni í 1. deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar þeir sóttu FSu heim í Iðu á Selfossi.
Leikurinn var jafn á fyrstu mínútum en í öðrum leikhluta skiptu Haukastrákar um gír og náðu yfir 20 stiga forskoti. Í þriðja leikhluta slökuðu þeir aðeins á klónni og FSu-menn gengu á lagið. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt eða þangað til að Haukaliðið rankaði aftur við sér og kláruðu leikinn.
Haukar unnu með 18 stigum, 79-97, þar sem Haukur Óskarsson var stigahæstur með 23 stig og 5 stoðsendingar. Emil Barja átti glymrandi leik með 22 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og Aaryon Williams var með 19 stig og 9 fráköst.
Kristinn Marinósson og Sveinn Ómar Sveinsson spiluðu báðir sinn fyrsta leik í langan tíma og áttu fína innkomu. Kristinn minnti menn á hversu eitraður hann er fyrir utan þriggja stiga línuna og Sveinn Ómar leysti þá Aaryon og Davíð Pál Hermannsson vel af hólmi undir körfunni.