Haukar unnu Breiðablik á föstudaginn í 1. deild karla í körfubolta og smelltu sér á topp deildarinnar við það. Staða Hauka varð svo vænlegri þegar Hamar sigraði Val í gærkvöld og dugar núna Haukum að sigra síðast deildarleik sinn á föstudaginn næsta gegn Hetti á Egilsstöðum til að tryggja sér sæti í Úrvalsdeild og fara beint upp.
Blikar náðu mest fimm stiga forystu í fyrsta leikhluta og settu Hauka í aðstöðu sem þeir hafa ekki verið vanir að vera í og sýndi það sig vel í því að leikmenn Hauka voru allir sífellt tuðandi í dómurum leiksins. Um leið og það hætti snéru þeir leiknum sér í vil og breyttu stöðunni úr 11-14 í 24-14 og þannig endaði fyrsti leikhluti.
Haukaliðið hélt áfram að bæta í og náði mest 17 stiga forskoti í öðrum leikhluta. Það var ljóst að Haukar lögðu mikið upp með að stoppa Þorstein Gunnlaugsson hjá Blikum og gekk það svo sem ágætlega. Þrátt fyrir það var Þorsteinn með yfir 20 stig og kringum 10 fráköst í leiknum og var öðrum að ólöstuðum besti leikmaður Blika í gær.
Haukar leiddu með 17 stigum í hálfleik, 46-29, og átti þessi munur bara eftir að stækka. Hann varð mestur um miðbik þriðja leikhluta en þá náðu Haukar 29 stiga forskoti og ljóst að róðurinn yrði gífurlega þungur fyrir Breiðablik ef þeir ætluðu að ógna Haukaliðinu á einhvern hátt.
Blikar börðust vel og náðu forskotinu niður fyrir 20 stig í fjórða leikhluta en það dugði ekki til og Haukar unnu öruggan 23 stiga sigur, 101-78.
Haukar: Terrence Watson 24/10 fráköst, Emil Barja 19/6 stolnir, Davíð Páll Hermannsson 12/7 fráköst, Helgi Björn Einarsson 10/6 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Þorsteinn Finnbogason 9, Kristinn Marinósson 8, Sigurður Þór Einarsson 7, Steinar Aronsson 6, Elvar Steinn Traustason 2/5 stoðsendingar, Guðmundur Kári Sævarsson 2, Jón Ólafur Magnússon 1, Andri Freysson 0