Haukar – Stjarnan fimmtudaginn 1. mars kl. 19:15 í Dominos deild karla

Í dag fimmtudaginn 1. mars koma nágrannar okkar úr Stjörninni í heimsókn og etja kappi við topplið Dominos deildar karla í gríðarlega mikilvægum leik fyrir Haukaliðið.

Haukar sitja einir á toppi deildarinnar og geta með sigri stígið stórt skref í átt að deildarmeistaratitlinum en það eru einungis þrír leikir eftir af deildarkeppninni og eiga Haukar eftir að heimsækja ÍR nk. sunnudag og svo heimaleik á móti Val fimmtudaginn 8. mars.

Haukar og Stjarnan hafa mæst tvisvar í vetur, einu sinni í deild og svo í bikar, en báðir leikir fóru fram í Garðabænum og unnu Haukar nokkuð öruggan sigur í þeim báðum. Ljóst er þó að um mjög erfiðan leik verður að ræða þar sem leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir Stjörnuna líka, en þeir eru í baráttu um að vinna sér inn sem best sæti fyrir úrslitakeppnina. Lið Stjörnunnar er vel skipað og eru þeir með tvo kana auk þess að landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bærings er þar í fararbroddi. Haukaliðið þarf því að mæta tilbúið til leiks. Ljóst er að Haukaliðið spilar án Kára Jóns en hann hefur verið mjög öflugur í vetur og hefur verið einn albesti leikmaður deildarinnar. Haukar eru sem betur fer með mikla breidd og en ljóst að aðrir verða að stíga upp og taka af skarið í liðinu í fjarveru Kára.

Við hvetjum alla til að mæta í Schenkerhöllina og hvetja liðið í baráttunni um deildarmeistaratitilinn, en baráttan er gríðarleg og eiga Tindastóll og ÍR einnig möguleika á þeim titli.

Áfram Haukar.