Björgvin Hólmgeirsson var hetja Hauka þegar þeir rauðklæddu sigruðu FH með eins markamun í Kaplakrika í gær. Staðan er því 3-0 fyrir Hauka í innbyrðisviðureignum þessara liða í vetur. Það er þó handknattleiksíþróttin sem er sigurvegarinn í stærra samhengi því leikirnir hafa verið frábær auglýsing fyrir íþróttina. Spenna, hraði, átök og frábær umgjörð í alla staði. Febrúarmánuður fer því vel af stað hjá Haukastrákunum sem eiga erfitt leikjaplan framundan. Undanúrslit í Eimskipsbikarnum kl. 16 á laugardaginn á Ásvöllum gegn HK, leik í deild gegn sama liði 17. febrúar og svo tveir Evrópuleikir á Spáni.
FH-ingar byrjuðu betur í gær og Pálmar Pétursson fór mikinn á milli stanganna. Þeir svartklæddu náðu mest þriggja marka forskoti en Haukar náðu að minnka muninn í eitt mark fyrir leikhlé með klókindum. Aron Kristjánsson skipti nafna sínum út úr markinu og lét Sigurberg koma óvænt inná og hann fékk boltann og minnkaði muninn í eitt mark, 13-12. Björgvin Hólmgeirsson var allt í öllu í sóknarleik Hauka í fyrri hálfleik og gerði sjö mörk. Guðmundur Ólafsson skoraði einnig falleg mörk úr horninu áður en Pálmar fór að sjá við honum. Varnarleikurinn fór að ganga betur hjá Haukum í seinni hálfleik, Einar Örn og Gunnar Berg fóru að láta til sín taka eftir að þeir komu inn og Freyr Brynjarsson fór að finna leiðina í netmöskvana eftir að hafa brennt af nokkrum færum.
Haukar komust yfir 15-16 með glæsilegum marki Einars Arnar og höfðu svo tveggja marka forystu 19-21. Þá tóku FH-ingar leikhlé og skoruðu þrjú mörk í röð við mikinn fögnuð sinna áhorfenda. Allt kom þó fyrir ekki og Björgvin Hólmgeirsson sendi þrumufleyg af stað nokkrum sekúndum fyrir leikslok og tryggði Haukum sigur 24-25. Haukafólk trylltist af fögnuði. Við þökkum strákunum fyrir frábæra skemmtun og FH-ingum fyrir frábæra umgjörð og harða mótspyrnu.
Næsti leikur er sem fyrr segir kl. 16 á laugardaginn gegn HK í undanúrslitum Eimskipsbikarsins. Allir á Ásvelli!