Haukum tókst ekki að sigra sinn fjórða leik í deildinni er þeir mættu liði Njarðvikur í Ljónagrifjunni í gærkvöld. Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og fram eftir leik en í fjórða leikhluta tóku heimamenn öll völd á vellinum og sigruðu að lokum með 13 stigum 80-67.
Njarðvík komst með sigrinum við hlið Hauka í deildinni og deila nú Haukar, Njarðvík og Tindastóll 8-10 sæti.
Gerald Robinson fór mikinn í upphafi leiks og skoraði til að mynda 14 af fyrstu 16 stigum liðsins og Semaj Inge var virkilega nálægt þrennunni.
En það var Haukur Óskarsson sem kom hvað mest á óvart í gær en hann var stigahæstur Hauka með 22 stig. Gerald Robinson skoraði 18 stig og tók 13 fráköst og Semaj Inge var með 12 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar.