Haustfaxaflóamót 2.flokks kvenna hafið

2.flokkur kvenna hóf knattspyrnuvertíðina í gærkvöldi þegar liðið mætti HK/Víkingi í hávaðaroki og stöku haglélum á Ásvöllum í fyrsta leik Haustfaxaflóamótsins.

Haukar hófu leik með sterkan vind í bakið og tóku öll völd á vellinum. Strax á 4. mínútu skoraði Sara Rakel 1-0 og á 11. mínútu bætti Sædís við marki. Þegar Eva Jenný kom Haukum í stöðun 3-0 á 27 mínútu bjuggust kannski einhverjir við því að stórsigur væri í vændum. En annað kom á daginn. HK/Víkingur vann sig hægt og bítandi inn í leikinn og frískir varamenn juka á ógnina í sóknarleik þeirra. Eftir hraða sókn tókst HK/Víking að minnka muninn í 3-1 og meira jafnvægi komst á í leiknum.

Vindurinn var enn til staðar í síðari hálfleik og hjálpaði HK/Víking að halda pressu á Haukunum. Skemmst er frá því að segja að HK/Víkingur náði að bæta við þremur mörkum án þess að Haukar næðu að svara fyrir sig, þrátt fyrir að hafa fengið nokkrar skyndisóknir og góð færi til að jafna. Lokatölur því 3-4 fyrir HK/Víking sem verða að teljast súr úrslit fyrir Haukana.

Það var gaman að fylgjast með Haukaliðinu og nokkuð ljóst að 2.flokkurinn getur orðið mjög sterkur í sumar, en í þessum leik gegn HK/Víking vantaði marga góða leikmenn. Þá vill undirritaður sérstaklega hrósa Rún og Rögnu sem léku mjög vel í gær og hafa augljóslega bætt sig mikið að undanförnu. Einnig sýndi Eva Jenný mikla hæfileika í leiknum.

Næsti leikur Haukar í mótinu er á föstudaginn þegar við heimsækjum ÍA og spilum í Akraneshöllinni kl. 19:00.