Þær Heiða Rakel Guðmundsdóttir og Sunna Líf Þorbjörnsdóttir hafa framlengt samninga sína við Knattspyrnudeild Hauka og gilda nýir samningar til 31. desember 2019.
Heiða Rakel, sem er á 22. aldursári, á að baki 72 leiki fyrir meistaraflokk Hauka en hún er uppalin hjá félaginu. Í þeim leikjum hefur hún skorað 16 mörk og verið lykilmaður í sóknarleik liðsins undanfarin tímabil. Þá á hún að baki tvo leiki með U19 landsliði Íslands.
Sunna Líf, sem er á 19. aldursári, á að baki 23 leiki fyrir meistaraflokk Hauka en hún er einnig uppalin hjá félaginu. Í þeim leikjum hefur hún skorað 1 mark. Sunna Líf hefur verið valin í æfingahópa U19 landsliðsins og staðið sig vel.
„Á Ásvöllum er verið að byggja til framtíðar og framlenging samninga við lykilmenn er stór liður í þeirri vinnu. Það ríkir gríðarleg ánægja með skuldbindingu Heiðu og Sunnu og við væntum mikils af þeim í komandi verkefnum,“ segir Jakob Leó Bjarnason þjálfari meistaraflokks kvenna.
Að sögn Jakobs hefur Heiða Rakel hefur verið fyrirliði liðsins í vetur. ,,Hún er augljóslega mikilvægur hlekkur fyrir okkur innan sem utan vallar. Það er ekkert leyndarmál að hún er lykilmaður í okkar sóknarleik og ég er ekki í vafa um að hún muni skína skært í sumar.“
,,Sunna Líf er okkur einnig mjög mikilvæg, enda er Sunna fjölhæf og getur leyst ýmsar stöður, sóknarlega sem og varnarlega. Hún stimplaði sig inn í lið Hauka síðastliðið sumar og átti gott sumar í hægri bakverðinum í Pepsí deildinni,“ segir hann.
Að sögn Jakobs hafa allir okkar leikmenn bundið sig verkefninu og því beri að fagna. ,,Stefnan er að hópurinn verði endanlega klár á næstu vikum en liðið fer svo í æfingaferð til Albir um miðjan apríl en þar mun lokaundirbúningurinn fara fram. Við hvetjum hreinlega alla Haukamenn og konur til að styðja við bakið á okkur í sumar.“
Knattspyrnudeild Hauka óskar þeim Heiðu og Sunnu til hamingju með nýju samningana og væntir mikils af þeim í komandi verkefnum.