Henning: Bikarúrslit eru bara einn leikur

Á morgun laugardag er komið að stóru stundinni, jú Haukar spila til úrslita í bikarkeppni KKÍ, Subwaybikarnum, gegn Keflavík. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 14:00 og verður leikinn í Laugardalshöll.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Haukar og Keflavík mætast í úrslitum bikarsins. Leikurinn á morgun verður fimmti leikur liðanna í úrslitum og standa liðin jöfn þegar kemur að sigurhlutfalli. Haukar hafa sigrað síðustu tvær viðureignir liðanna í úrslitum en Keflavík vann hinar tvær þar á undan. Haukar hafa því betur eftir árið 1990 en þá mættust liðin í leik sem að Haukar áttu aldrei séns í. Það verður því fróðlegt að sjá hvort liðið hafi betur á morgun og tekur yfirhöndina í sigrum milli þessara liða í úrslitum bikarkeppninnar.

Heimasíðan hitti Henning Henningsson þjálfara Haukaliðsins og tók við hann létt spjall. Að hans sögn eru engin alvarleg meiðsli að hrjá liðið heldur hellingur af smákvillum sem gleymast allir þegar flautað verður til leiks á mogun.

Leið Hauka að úrslitunum hefur verið auðveldari en sú sem að Keflvíkingar fóru svona á pappírum séð og hefur Haukaliðið bara spilað gegn liðum úr neðri hluta deildarinnar. Henning segir að þeirra leið í úrslit hafi ekkert með möguleikana á sigri að gera.

„Leið okkar í bikarúrslitin hefur ekkert með möguleika okkar á sigri á morgun að gera, í bikarkeppni leggja allir leikmenn sig fram til að sigra og hver leikur er áskorun hvernig svo sem spilast úr viðkomandi leikjum. Eina sem við þurfum að hugsa um er að mæta vel innstilltar og einbeittar í að gera okkar besta, ef við gerum það þá er ekki hægt að biðja um meira.“

Lið Keflavíkur hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og unnið hvern leikinn á fætur öðrum. Liðið sló út Grindavík og Hamar úr bikarnum og sigruðu á dögunum KR í deildinni sem trónir á toppi Iceland Express-deildar kvenna. Það lá því beinast við að spyrja Henning hvort að Haukaliðið ætti séns í suðurnesjaliðið

„Já Haukar eiga séns gegn Keflavík, það er þó alveg ljóst að Keflavík hefur verið að spila gríðarlega vel undanfarið og hafa verið heitasta liðið í deildinni núna um miðbik móts en bikarúrslit eru bara einn leikur þar sem bæði lið mæta til að sigra, velgengni í íþróttahúsum víða um land undanfarin misseri telur ekki þegar flautað verður til leiks á laugardaginn. Ég tel mig sjá möguleika í stöðunni sem við erum að vinna í og munum reyna að nýta okkur,“ sagði Henning sem þekkir það að eigin raun að vera í úrslitum í bikar en þangað hefur hann farið nokkrum sinnum bæði sem leikmaður og þjálfari og síðast þegar Haukar sigruðu Grindavík í úrslitunum 2005 en þá þjálfaði Henning lið Grindavíkur.

Henning segir stemninguna í hópnum frábæra og að stelpurnar þyrsti í alvöru leik. „Við höfum verið að byggja okkur upp fyrir þennan leik eins vel og frekast hefur verið kostur,“ sagði hann.

Henning hefur oftar en ekki tekið veðmálum um hitt og þetta þegar það kemur að því að kreista fram það besta úr sínu liði og hefur hárið á honum fokið af ofter en einu sinni. Hann segir að það sé ekki svo í þetta skiptið.

„Ég reikna ekki með að hárið mitt sé eftirsótt lengur, það hefur svo oft fokið af, en nei það eru engar opinberar áskoranir í gangi enn sem komið er,“ sagði Henning og bætti við að lokum.

„Það verður enginn Hafnfirðingur svikinn að því að skreppa í Höllina og berja augum gríðarlega myndarlegar rauðklæddar stúlkur í stríðsham, ég hvet alla til að koma og hvetja Haukastelpurnar til góðra verka á parketinu í Höllinni á morgun.“