Herrakvöld Hauka var haldið síðastliðið laugardagskvöld. Hátt í 300 manns voru samankomnir til að skemmta sér og styrkja félagið. Í einu orði sagt tókst kvöldið frábærlega. Öll umgjörð var til fyrirmyndar og fyrir það ber að þakka Herrakvöldsnefndinni, Afmælisnefndinni og fleira góðu fólki. „KR-ingurinn“ Guðbrandur Stígur stóð sig eins og hetja í veislustjórninni og maturinn frá Gumma í Laugás var til fyrirmyndar. Tækjamál voru í góðum höndum Ella frá Exton og Júlli í Júlladiskó sá um að halda fólki á dansgólfinu eftir miðnætti en þá gátu konur komið í fjörið. Í þema kvöldsins var vísað til stofnárs Hauka 1931 og mættu margir í klæðnaði sem vísaði til þess tíma, til að mynda mættu margir með flotta hatta og einhverjir keyptu sér hatta á staðnum. Herrarnir á staðnum létu ekki sitt eftir liggja þegar kom að því að kaupa happdrættismiða og einnig gekk treyjuuppboðið mjög vel. Það mátti heyra saumnál detta þegar menn kepptust við að bjóða í treyju Zlatans Ibrahimovic frá AC Milan. Hér verður ekki gefið upp hvað treyjan fór á en hún er í góðum höndum. Guðbrandur Stígur, veislustjóri, sló í gegn á treyjuuppboðinu þegar hann ákvað að bjóða upp KR treyjuna sína, áritaða af sjálfum sér.
Haukar vilja sérstaklega þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóginn, án þeirra væri þetta ekki hægt.
Alls voru 14 happdrættisvinningar í boði og hér að neðan má sjá vinningsnúmerin og hvaða vinningar gengu ekki út:
1. Þýsk gæðakaffikanna frá KHG Miði nr. 1655 Gekk ekki út |
2. Hliðartaska frá Hummel Miði nr. 0295 OK |
3. Verkfærataska Miði nr. 1913 Gekk ekki út |
4. Karfa frá EAS Miði nr. 0203 OK |
5. Porsche Design, ilmur og sápa Miði nr. 2265 OK |
6. Snyrtitaska frá Clarins for Men Miði nr. 0517 OK |
7. Ferðakolagrill frá Weber Miði nr. 1317 OK |
8. Castelgarden Hekkklippa, 400W Miði nr. 0178 OK |
9. Pottjárns útikamína frá Premier Miði nr. 2656 Ok |
10. Hótelgisting frá Icelandairhotels Miði nr. 1205 Ok |
11. Castelgarden Hekkklippa, 600W Miði nr. 1007 Ok |
12. Outback Gasgrill Miði nr. 0780 Gekk ekki út |
13. Canon IXUS 105 IS myndavél Miði nr. 2056 Gekk ekki út |
14. Ferðavinningur frá Icelandair Miði nr. 1483 Ok |
Ósótta vinninga má nálgast á skrifstofu Knattspyrnufélags Hauka að Ásvöllum.
Einn moli að lokum.
Þegar vinningur nr. 5 var dreginn út birtist á stóra tjaldinu upplýsingar um vinninginn:
Porsche Design, 50ml af Porsche Design herralimur og 200 ml. Af Porsche Design hár- og líkamssápu. Vinningshafinn stökk á fætur hinn ánægðasti.
Enginn tók þó eftir þessu stafavíxli nema sá sem er vanur að rýna í smáatriðinn „tollstjórinn“ sjálfur Hörður Davíð Harðarson.
Myndin tengist molanum ekki beint.