Hilmar Geir Eiðsson í viðtali – 3 dagar í fyrsta leik

Nú í dag eru heilir þrír dagar í fyrsta leikinn hjá meistaraflokki karla í 1.deildinni í sumar. Haukar heimsækja þá Leikni frá Reykjavík og hefst leikurinn klukkan 20:00 á mánudaginn.

Nú dag mun þriðji Hilmarinn í liðinu svara nokkrum vel útvöldum spurningum frá fréttariturum Haukar.is. 

Hilmar Geir Eiðsson spilar oftar á hægri kantinum, en hann getur einnig spilað á þeim vinstri. Hilmar er uppalinn hjá Haukum og en hann er fæddur árið 1985. Hann hefur verið einn af lykilmönnum í liðinu á undanförnum árum og spilað nánast alla leikina í Íslandsmótinu með Haukum síðustu ár. 

Við gefum Hilmari orðið:

1. Fyrsti leikurinn í Íslandsmótinu næstkomandi mánudag gegn Leikni Reykjavík, hvernig lýst þér á þann leik, er ekki mikil tilhlökkun fyrir þeim leik hjá þér og hópnum ?

Alltaf tilhlökkun fyrir fyrsta leik, fínt að fá Leikni í fyrsta leik, höfum náð góðum úrslitum gegn þeim á þeirra heimavelli síðustu ár. En annars er erfitt að meta styrk Leiknisliðsins, enda lítið séð þá spila í vetur. Býst við hörkuleik, eins og allir leikir verða í sumar.

2. Í fyrra náðu þið ágætis árangri fyrri hluta tímabils en svo fór að halla undir fæti í seinni umferðinni. Eru þið með nægilega sterkan hóp til að ná lengra en í fyrra ?

Erfitt að segja, liðið er líklega ekkert lakara en í fyrra. Hinsvegar er hópurinn töluvert minni og spurning hvernig liðið bregst við álaginu. Við höfum hinsvegar lagt mikið á okkur í lyftingarsalnum lágmarka niðursveifluna í sumar. Dýfan seinni hluta tímabilsins í fyrra var lærdómsrík og mun ekki gerast aftur.

3. Nú hafið þið misst níu leikmenn frá liðinu síðan í fyrra auk þess sem Albert Högni fór til Noregs eftir að hafa gengið til liðs við Hauka fyrr í vetur. Er ekki gríðarlegur munur á liðinu sem er nú og aftur á móti liðinu sem var að spila í fyrra ?

Mikill missir af Ómari Karl og Alberti, þeir gáfu okkur ýmsa möguleika. Hinsvegar er að myndast ákveðin hefð eða aðferðafræði í Haukum, þannig að þótt enginn Hilmar, Ómar eða Tóti sé í liðinu þá mun það halda áfram að láta boltann ganga.

4. Hvernig lýst þér á 1.deildina í sumar ? Hvaða lið munu berjast um sæti í Pepsi-deildinni og hvaða lið munu svo vera berjast um það að halda sér í deildinni að þínu mati ?

Mér lýst mjög vel á deildina, hún verður jöfn og skemmtileg. ÍA og HK verða í toppbaráttunni, síðan geta mörg önnur lið blandað sér í þá baráttu, þar á meðal við. Það geta verið hvaða lið sem er í þessari fallbaráttu, mér er sama svo lengi sem við erum ekki í henni og Víkingur Ólafsvík sé í henni.

5. Nú hefur verið mikið af meiðslum í hópnum í vetur, hvernig hefur líkaminn verið þér í vetur og hvernig er ástandið á hópnum í dag ?

Það er búið að vera mikið um meiðsli, en menn ættu að skríða saman fyrir fyrsta leik. Persónulega þá var allt í mjög góðum málum fram að páskum, þá lenti ég í veikindum sem ég er enn að reyna hrista af mér, ætti vonandi að vera orðinn 100% fyrir fyrsta leik.

6. Hverja telur þú vera aðal styrkleika Hauka ?

Helsti styrkileiki liðsins er að kunnum og viljum spila fótbolta, þegar við látum boltann ganga eiga fá lið séns í okkur.

7. Og á sama skapi, hverjir eru veikaleikarnir ?

Þegar við hættum að láta boltann ganga.

8. Það verður að segjast eins og er, að það er langt síðan að Haukaliðið hafi verið skipað á svona mörgum heimamönnum, finnur þú fyrir öðruvísi stemmingu í hópnum nú en t.d. fyrir 4-5 árum ?

Já mikil hugarfarsbreyting og meiri samstaða, menn eru ekki bara í þessu til að vera með, heldur til þess að sigra.

9. Að lokum, hefur þú sett þér einhver markmið fyrir sumarið ?

Ég er búinn að setja mér markmið, en aðeins útvaldir fá að vita hver þau eru.

Við hvetjum alla til að fjölmenna á Leiknisvöllinn á mánudaginn og hvetja strákana áfram, en þetta verður langt og erfitt tímabil fyrir strákana í sumar.