Hilmar Rafn Emilsson í viðtali – 5 dagar í fyrsta leik

Áfram höldum við að fjalla um knattspyrnuna enda styttist í að Íslandsmótið hefjist. Fyrsti leikurinn í 1.deildinni fer fram á sunnudaginn en fyrsti Haukaleikurinn fer samt sem áður fram á mánudaginn í Efra-Breiðholtinu, þegar Leiknismenn taka á móti Haukum. Leikurinn hefst klukkan 20:00.

Í dag mun sóknarmaðurinn Hilmar Rafn Emilsson svara nokkrum vel völdum spurningum frá fréttariturum Haukar.is. Hilmar Rafn er 23 ára, sóknarmaður sem hefur alla tíð leikið með Knattspyrnufélaginu Haukum.

Hann eins og fleiri í liðinu hefur verið gríðarlega óheppinn með meiðsli undanfarin ár en Hilmar ætlar ekkert að gefast upp og mun hann vera með reimda takkaskóna sína í sumar, varnarmönnum annara liða í deildinni til gremju. Verði Hilmar heill í allt sumar er ekki að spyrja að því að hann mun skora þau ófá mörkin fyrir Haukana. 

Gefum Himari Rafni orðið:

Nú ert stutt í mót, hvernig er stemmingin hjá þér og hópnum fyrir tímabilið ?

 

Stemmningin í hópnum er mjög góð enda eintómir fagmenn í liðinu. Stemmningin hjá mér er einnig fín enda allur að skríða saman eftir vetrardvala

 

Fyrsti leikurinn er á mánudaginn næstkomandi gegn Leikni, hefur þú eitthvað séð til Leiknis-liðsins í vetur og veistu eitthvað um það ?

 

Ég hef ekki séð neitt til þeirra í vetur en þeir stóðu sig víst ágætlega í Lengjubikarnum og voru nálægt því að komast upp úr sínum riðli.  Þessi lið hafa mæst nokkrum sinnum undanfarin ár í deildinni, Visa bikarnum og Lengjubikarnum svo að við vitum nokkurn veginn við hverju við megum búast frá þeim. 

 

Nú hefur þú verið gríðarlega óheppinn með meiðsli undanfarin ár, hvernig hefur þú verið í vetur og hvernig er staðan á þér núna, korteri fyrir mót ?

 

Ég byrjaði undirbúningstímabilið í október í meiðslum en kom svo ferskur inn í  janúar og tók aðeins á þessum pappakössum í liðinu og meiddist svo strax aftur. Svo datt ég inn aftur um miðjan febrúar og kenndi þessum súkkulaðikleinum hvernig á að spila fótbolta í nokkra daga en meiddist strax aftur og hef verið frá síðan þá. Ég er hins vegar allur að koma til og er búinn að taka núna tvær æfingar án þess að meiðast, svo ég verð án efa í toppformi þegar mótið hefst eftir rúma viku.

 

Hvernig hefur þér fundist ganga hjá Haukaliðinu í vetur í æfingaleikjunum og í Lengjubikarnum ? Og hvernig hefur þér fundist spilamennskan hjá liðinu hafa verið ?

 

Mér fannst við byrja árið mjög vel og vorum að spila flottan fótbolta og ná mjög góðum úrslitum í æfingaleikjum, allt þar til að kom Lengjubikarnum þar sem við spiluðum undir getu. Það býr hellingur í þessu liði sem við náðum ekki að sýna þar. Vonandi að menn hafi bara verið spara spilamennskuna fyrir Íslandsmótið

 

Eins og fyrr segir er stutt í mót og það er alltaf gríðarlegur spenningur hjá fótboltaunnendum fyrir hverju fótboltasumri, hverju mega Haukamenn búast við af Haukaliðinu í sumar ?

 

Stuðningsmenn Hauka mega búast við bullandi fjöri, sambabolta og sólskini á skraufþurru gervigrasinu í sumar. Ásgeir ætlar til að mynda að setja Íslandsmet í fjölda hælsendinga á einu sumri.  Ég var líka að heyra af því að Ronaldo ætlaði að byrja að spila með sólgleraugu svo það eru allar líkur á því að það sama verði uppi á teningum hjá Ásgeiri.  Einnig hefur Hilmar Geir sett sér það að markmiði að ýta öllum bakvörðum deildarinnar upp í stúku (brekku). 

Þar að auki mun Tóti bæta sitt eigið heimsmet í flokknum “Elsti maður í heimi til að stíga inn á knattspyrnuvöll”

 

Hvaða lið í 1.deildinni telur þú vera sigurstranglegust og líklegust til afreka ?

 

Ég held að HK sé líklegastir til afreka í ár. Þeir hafa verið sterkir í vetur og ég held að þeir séu sigurstranglegastir.

 

Nú hafið þið misst nokkra lykilmenn og hafið fengið nokkra aðra leikmenn inn í leikmannahópinn, hvernig lýst þér á þær breytingar sem hafa verið gerðar á leikmannahópnum?

Mér líst vel á hópinn. Við misstum marga leikmenn en við höfum einnig fengið sterka leikmenn í staðinn. Breytingarnar eru af hinu góða og hópurinn er þéttur í ár. Ég hef fulla trú á að þetta lið geti gert góða hluti í sumar.