Ingvi Þór Guðmundsson til Hauka

Bakvörðurinn Ingvi Þór Guðmundsson skrifaði í dag undir hjá körfuknattleiksdeild Hauka og mun taka slaginn með liðinu þegar Domino‘s deildin fer aftur af stað.

Ingvi hefur spilað með liði Grindavíkur undanfarin ár og var á síðustu leiktíð með 14,4 stig að meðaltali, 5,1 frákast og 5 stoðsendingar í leik. Það leynist engum að þarna er hæfileikaríkur leikmaður á ferð og verður hann flott viðbót við Haukaliðið.

Foreldrar Ingva þau Guðmundur Bragason og Stefanía Jónsdóttir spiluðu bæði fyrir Hauka í kringum aldamótin þannig að þetta er ekki í fyrsta skipti sem að Ingvi verður að djöflast innan veggja Ásvalla.

Við bjóðum Ingva velkominn í Hauka.