Jafnt á Ásvöllum

Haukar tóku á móti Leiknismönnum á Ásvöllum í kvöld en um var að ræða frekar spennandi leik. Haukamenn voru betri aðilinn í leiknum en áttu í basli við að klára færin sem þeir fengu.

Það var skýjað á vellinum og lítið sást til sólar þegar Magnús Þórisson flautaði til leiks. Það Haukamaðurinn Hilmar Geir Eiðsson sem átti fyrsta skot leiksins en markmaður gestanna varði vel.

Mynd: Jöfnunarmark Hauka í seinni hálfleik. Þrumufleygur hjá Hilmari Geirstefan@haukar.is

Leikurinn fór fremur rólega af stað en á 9. mínútu var það Amir Mehica sem bjargaði okkur heimamönnum þegar hann varði gott skot Leiknismanna í horn. Þeir áttu svo hornspyrnu stuttu síðar þar sem að þeir áttu skalla í stöng, Haukamenn sluppu þarna með skrekkinn þar sem að boltinn virtist rúlla á línunni í fangið á Amir.

Haukamenn voru að láta boltann ganga nokkuð vel en löngu sendingarnar voru ekki upp á marga fiska. Ásgeir Ingólfsson kom sér í þröngt færi á 34.mínútu þar sem að markmaður gestanna varði í horn.

 

Haukum tókst ekki að skapa sér eitthvað markvert en liðin skiptust á að sækja án árangurs, staðan því markalaus í hálfleik.

 Haukar gerðu eina skiptingu í hálfleik, útaf fór Hilmar Rafn Emilsson fyrir Úlfar Hrafn Pálsson en Hilmar hefur átt við meiðsli að stríða upp á síðkastið.  Það voru Haukamenn sem byrjuðu seinni hálfleikinn betur og var það Pétur Ásbjörn Sæmundsson sem átti góðan skalla eftir horn spyrnu en markmaðurinn varði sem fyrr. Pétur fékk svo á sig víti þegar 58 mínútur voru búnar af leiknum, mjög óheppilegt fyrir drenginn sem hafði staðið sig vel allan leikinn. Gestirnir skoruðu úr spyrnunni og því var staðan 0-1 fyrir Leiknismönnum.

Þeir voru nálægt því að bæta við öðru marki stuttu seinna þegar að þeir áttu skot yfir, vörnin sofnaði á verðinum og staðan hefði hæglega getað orðið 0-2. Á 64. mínútu fengu Haukamenn aukaspyrnu, inn í teiginn fór boltinn en mikið klafs var í teignum og boltinn rataði á eitthvern hátt yfir.

Stungusendingar heimamanna rötuðu einungis á markmann Leiknis en varnarlína þeirra var mjög aftarlega.

 

Enok Eiðsson kom svo inná í stað Garðars Ingvars Geirssonar. Þegar 15 mínútur voru til leiksloka voru Leikinsmenn nálægt því að gera út um leikinn þegar Amir varði gott skot þeirra yfir markið. Aðeins þremur mínútum seinna skoraði Hilmar Geir Eiðsson úr frábæru langskoti beint upp í markvinkilinn, óverjandi fyrir markmanninn.

 

Þetta mark kveikti heldur betur í okkar mönnum og tóku þeir öll völd eftir þetta. Enok átti svo gott skot framhjá þegar tíu mínútur voru til leiksloka eftir að Hilmar Geir hafði prjónað sig upp völlinn. Enok var aftur á ferðinni aðeins mínútu seinna þegar hann átti gott skot í hliðarnetið.

 

Síðustu andartök leiksins voru spennandi en Hilmar Geir var nálægt því að skora þegar aðeins þrjár mínútur voru eftir en skot hans beint á markmanninn.

 

Tvær mínútur voru í uppbótartíma en hvorugt liðið náði að skapa eitthvað á þeim tíma og því enduðu leikar 1-1. Þessi úrslit eru ekki nógu góð fyrir Hauka sem ætla sér upp á þessari leiktíð.

Umfjöllun: Þórður Jón Jóhannesson

myndir: stefan@haukar.is