Kæru Haukar
Nú líður að lokum þessa óvenjulega árs þar sem íþróttastarf okkar hefur legið niðri nánast allt árið. Íþróttamiðstöðin á Ásvöllum hefur verið lokuð megin hluta ársins og verður áfram fram á nýtt ár. Af þessum sökum verða ekki hefðbundnar samkomur okkar Haukamanna um þessi jól og áramót eins og við erum vön. Vonandi verða aðstæður orðnar betri þegar við höldum upp á 90 ára félagsins þann 12. apríl á næsta ári.
Við sjáum nú ljós fyrir enda þessa óvenjulega tíma þar sem við munum sjá íþróttastarf hefjast að nýju og Íþróttamiðstöðina að Ásvöllum iða af lífi sem fyrr. Við munum einnig á næsta ári sjá framkvæmdir hefjast við nýtt knatthús, eftir langa meðgöngu. Knatthús sem mun verða gríðarleg lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Haukum og allt starf okkar. Áætlanir gera nú ráð fyrir að knatthús verði tekið í notkun haustið 2022.
Árið sem er að líða hefur verið þungt í rekstri fyrir Hauka, eins og önnur íþróttafélög, og reynt mjög á starfsfólk Hauka, stjórnarmenn deilda, þjálfara, leikmenn og iðkendur og alla þá sem koma að starfi félagsins. Vil ég þakka ykkur öllum fyrir frábært starf á árinu og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.
Bestu jólakveðjur
Samúel Guðmundsson
Formaður Hauka