Við lifum á fordæmalausum tímum þar sem samkomutakmarkanir setja okkur miklar skorður við að halda upp á 90 ára afmæli okkar ástsæla félags. Félags sem hefur vaxið frá því að 13 félagar stofnuðu félagið árið 1931 í það að vera nú fjölmennasta félagið í Hafnarfirði, þar sem þúsundir barna og fullorðina á öllum aldri koma að því að sækja viðburði og félagsstarf á vegum Hauka. Við munum halda upp á 90 ára afmæli Hauka með myndarlegum hætti þegar fyrsta færi gefst. Afmælisnefndin hafði undirbúið veglegt afmæli sem því miður þurfti að fresta vegna þess óvenjulega ástands sem nú ríkir.
Haukar gáfu út veglegt afmælisblað sem borið var út til um 75.000 heimila auk þess sem afmælisblaðið hefur verið sett á heimasíðu félagsins. Þá verður í dag tekinn fyrsta skóflustungan að nýju knatthúsi sem rísa mun á næstu 3 árum á æfingasvæðinu. Knatthúsið mun skipa sér í flokk með bestu knatthúsum hér á landi og verða í takt við þær metnaðarfullu byggingar sem byggðar hafa verið hingað til á Ásvöllum og mun verða gríðarleg lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Haukum og allt starf okkar. Dagurinn í dag markar því tímamót í þeirri löngu baráttu sem við Haukar höfum háð við að skapa knattspyrnudeild félagsins viðunandi æfingaaðstöðu. Þakka ber Hafnarfjarðarbæ fyrir þeirra framsýni, velvilja og metnað, við að byggja áfram upp á Ásvöllum eina glæsilegustu íþróttaaðstöðu hér á landi.
Því miður verða ekki aðrir viðburðir á vegum félagsins í tilefni af afmælinu og því ekki mögulegt, að sinni, að þakka þeim mörgu sjálfboðaliðum og starfsmönnum sem vinna óeigingjarnt og gríðarlega mikilvægt starf fyrir félagið, eins og hefð er fyrir. Ég vil því hér nota tækifærið og þakka ykkur öllum, sjálfboðaliðum, starfsmönnum og velunnurum félagsins, fyrir ykkar ómetanlega starf við að byggja upp félagið okkar. Án ykkar væri félagið ekki jafn öflugt og það er í dag.
Samúel Guðmundsson
Formaður Hauka