Karen og Haukur íþróttamenn Hauka 2014, Patrekur þjálfari ársins

íþróttamenn HaukaKaren Helga Díönudóttir og Haukur Óskarsson voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Hauka fyrir árið 2014. Þá var Patrekur Jóhannesson kjörinn þjálfari ársins. Eftirfarandi eru umsagnir þau sem fylgdu kjörinu:

Karen Helga Díönudóttir handknattleikskona hefur leikið allan sinn feril hjá Haukum. Hún á að baki fjölda landsleikja með yngri landsliðum. Hún átti mjög gott tímabil síðasta vetur og var meðal markahæstu leikmanna, auk þess að vera fyrirlið Haukaliðsins. Var valin í A landslið Íslands á þessu ári. Karen er fyrirmyndar íþróttamaður og góður Haukafélagi.

Haukur Óskarsson körfuboltamaður er einn af hinum fjölmörgu leikmönnum Hauka sem sprakk út á síðasta keppnistímabili og hefur gert enn betur á núverandi tímabili. Hann er varafyrirliði Haukaliðsins og er mikil 3ja stiga skytta og einn sá öflugasti á landinu fyrir utan 3ja stiga línunna. Haukur er mikill Haukamaður sem haldið hefur tryggð við félagið gegnum súrt og sætt og er góð fyrirmynd yngri leikmanna, innan vallar sem utan.

Patrekur Jóhannesson er þjálfari sigursæls karlaliðs Hauka sem vann m.a. alla titla sem í boði voru 2014, að Íslandsmeistartitli undanskildum, sem tapaðist með minnsta mun í eftirminnanlegum leik hér á Ásvöllum í maí sl. Patrekur hefur reynst Haukum mikill fengur, er hann afar fær þjálfari, vandvirkur og vinnusamur. Patrekur er einnig þjálfari A landsliðs Austurríkis.