Kláruðu þetta á seiglunni

Fyrsti leikur Hauka í vetur í 1. deild karla í körfubolta fór fram í kvöld á Ásvöllum. Tóku þar Haukar á móti Skallagrím úr Borgarnesi í leik sem var ágætis skemmtun.

Mæting í kvöld var ágæt og ljóst að Haukamenn ætla að fjölmenna í vetur og styðja við strákana á leið sinni í Iceland Express-deildina.

Mynd: Elvar Steinn Traustason skoraði 3 stig í kvöld – stefan@haukar.is

Haukarnir voru sterkari aðilinn allan leikinn og voru líklegir til að ganga frá gestunum úr Borgarnesi og leiddu þeir með 16 stigum eftir fyrstu þrjá leikhlutan. 62-46. En þá kom nokkuð á leik heimamanna og gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn í eitt stig 64-63 þegar um fjórar mínútur voru eftir.

En Haukar lönduðu sigri með hörku og seiglu en Helgi Einarsson fór á kostum á endasprettinum.

Sigur Hauka 76-71 staðreynd.

Helgi Einarsson skoraði mest fyrir Hauka eða 15 stig en þeir Óskar Magnússon og Davíð Páll Hermannsson voru með 11 stig hvor.

Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka, og Ívar Ásgrímsson, aðstoðarþjálfari, notuðu alla 12 leikmenn Hauka í leiknum og ljóst að breiddin er mikil í liðinu en sterkir leikmenn eins og Sveinn Ómar Sveinsson og Haukur Óskarsson voru ekki með í kvöld vegna meiðsla.

Næsti leikur Hauka er eftir viku gegn Yngva Gunnlaugssyni og drengjunum hans í Val en leikið verður á Ásvöllum.

Áfram Haukar