Knattspyrnudeild Hauka samdi í dag við Sean De Silva sem er 29 ára gamall landsliðsmaður frá Trínidad og Tóbagó. Um er að ræða samning til eins árs. Þá samdi félagið einnig við Frans Sigurðsson sem kemur að láni frá ÍBV en hann er tvítugur Eyjamaður og lék með Haukum á síðasta tímabili.
Sean er öflugur sóknarsinnaður miðjumaður sem hefur meðal annars spilað með Minnesota United FC í Bandaríkjunum sem og í topp liðum í heimalandinu. Þá er Sean vel menntaður þjálfari sem mun aðstoða við þjálfun yngri flokka hjá Haukum.
Hann hefur undanfranar vikur verið að æfa með landliðshópi Trinidad í undirbúningi fyrir landsleik á móti Wales í lok mánaðarins.
Kristján Ómar Björnsson, þjálfari Hauka, segir Sean virkilega góðan liðsstyrk. ,,Sean er frábær viðbót við okkar unga lið sem kemur til með hjálpa okkur mikið í sumar og sérstaklega sóknarlega. Hann mun auka gæði í leikmannahópnum og það verður virkilega spennandi að fylgjast með honum í sumar.“
Frans spilaði spilaði 10 leiki með Haukum á síðasta tímabili og skoraði eitt mark. Kristján Ómar segir að Frans muni einnig styrkja liðið fram á við og hann sé kærkominn liðsstyrkur. ,,Við þekkjum Frans vel frá því á síðasta tímabili og það er mjög ánægjulegt að hann verði með okkur í sumar.“
Ljósm. Hulda Margrét