Á morgun fögnum við 87 ára afmæli félagsins okkar. Allt frá stofnun félagsins þann 12. apríl 1931 hafa Haukar horft með bjartsýni og dug til þeirra fjölmörgu verkefna sem félagið hefur tekist á við. Öflugt íþrótta- og félagsstarf hefur verði aðalsmerki félagsins í áratugi og uppbygging félagsins verið eitt ævintýri. Íþróttamiðstöðin hér á Ásvöllum er glæsilegt mannvirki og á morgun fögnum við því að nýr íþróttasalur, sem bera mun nafnið Ólafssalur, í minningu okkar góða félaga, Ólafs Rafnssonar, fyrrum forseta ÍSÍ, verður tekinn í notkun. Með tilkomu nýja salarins leysist verulega úr þeim aðstöðuvanda sem hér hefur skapast undanfarin ár.
Á þessum tímamótum þökkum við okkar öflugu framvarðarsveit, íþróttafólki Hauka, starfsfólki, sjálfboðaliðum og stuðningsmönnum öllum fyrir öflugan stuðning við félagið okkar. Með stuðningi ykkar er Knattspyrnufélagið Haukar eitt af öflugustu íþróttafélögum landsins.
Samstarf Hauka og Hafnarfjarðarbæjar hefur ætíð verið farsælt og gott og færa Haukar Hafnarfjarðarbæ bestu þakkir fyrir dyggan stuðning við uppbyggingu mannvirkja hér á Ásvöllum.
Í tilefni afmælis félagsins á morgun, fimmtudag, 12. april, er Haukafélögum og velunnurum boðið að þiggja veitingar á milli klukkan 18:30 – 20:00 í anddyri Íþróttamiðstöðvarinnar.
Áfram Haukar.