Knattspyrnufélagið Haukar í 94 ár.

Daginn er tekið að lengja, sól hækkar á lofti og blessuð lóan er farin að láta í sér heyra. Það eru þessir dagar sem lyfta huganum mót birtu og yl og öll vonumst við eftir góðum sumardögum. Í dag fögnum við hins vegar 94 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Hauka, en félagið var stofnað þann 12. apríl árið 1931. Við erum stolt af félaginu okkar, magnaðri sögu félags sem eftir nokkur ár mun fagna öflugu íþrótta- og félagsstarfi í 100 ár. Fjölmargt hefur áunnist á þessum áratugum og margs er að minnast og mörgum ber að þakka fyrir þeirra framlag. Eitt skref í einu og áfram gakk er okkar aðalsmerki og nú á nýju ári fögnuðum við enn einum áfanganum þegar knatthús Hauka var tekið í notkun. Við erum einstaklega stolt af nýja knatthúsinu sem er eitt glæsilegasta knatthús landsins. Án nokkurs efa mun þessi viðbót á íþróttasvæði Hauka verða mikil lyftistöng fyrir félagið okkar.
Kæru vinir, fögnum afmæli félagsins okkar á fögrum degi, 12. apríl 2025. Það er heitt á könnunni í dag.
Áfram Haukar.
Magnús Gunnarsson,
formaður Knattspyrnufélagsins Hauka.