Körfuknattleiksfólk kkd. Hauka 2018

Körfuknattleiksdeild Hauka gerir nú kunngjört valið á þjálfara ársins, körfuboltakonu ársins og körfuboltamanni ársins og munu þessir fulltrúar deildarinnar heyra undir val á íþróttafólki og þjálfara Knattspyrnufélagsins Hauka. Það val fer fram í hádeginu á gamlársdag í hátíðarsal félagsins.
Í ár eru það Ingvar Þór Guðjónsson, Þóra Kristín Jónsdóttir og Kári Jónsson sem verða fulltrúar körfuknattleiksdeildarinnar og eru þau vel að þessu komin.

 

 

 

 

Þjálfari Ársins 
Ingvar Þór Guðjónsson á langa og árangursríka sögu í þjálfun hjá Haukum og á síðasta tímabili náði hann að gera körfuknattleikslið kvenna að bæði deildar- og Íslandsmeisturum eftir skemmtilega deildarkeppni við bæði Keflavík og Val. Úrslitarimman var háð gegn Val, staðan var 2-2 og því var hreinn úrslitaleikur um titilinn í síðasta leiknum. Haukar kláruðu þann leik með stæl og Ingvar náði því þeim frábæra árangri að skila Haukum Íslandsmeistaratitli og vel að vali sem þjálfari ársins kominn.

 

Körfuboltakona ársins Þóra Kristín Jónsdóttir hefur verið ein af máttarstólpum mfl. Hauka síðustu ár og hefur vaxið gríðarlega sem leikmaður og er í dag orðin einn besti leikmaður Dominos deildarinnar. Jafnframt er hún orðin lykilmaður í A landslið KKÍ, verið þar leikstjórnandi liðsins og hefur verið byrjunarliðsmaður síðustu tvö ár. Þóra Kristín varð Íslandsmeistari með Haukum á síðasta ári þar sem hún var í lykilhlutverki og stjórnaði leik liðsins. Þóra spilaði alla leiki liðsins í fyrra og var með 9,2 stig, 4,8 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik sem er með því besta sem íslenskur leikmaður gerði í deildinni í fyrra. Í ár hefur Þóra stígið enn meira upp í vetur og hefur nú þegar verið valin í þrígang í lið umferðarinnar, sem er það mesta sem einn leikmaður hefur náð á þessu tímabili. Auk þess hefur hún bætt alla sína tölfræði og er í dag með 14,5 stig, 5,8 stoðsendingar og 6,9 fráköst að meðaltali í leik og framlag uppá 17,1. Þá er hún í dag efst í deildinni af íslenskum leikmönnum í framlagi, stoðsendingum og stigaskori. Þóra Kristín hefur sýnt það í vetur að hún er er vel að þessari tilfnefningu komin og er í dag orðinn einn allra besti leikmaður deildarinnar.

 

Körfuboltamaður ársins
Kári Jónsson leiddi Haukana á síðasta tímabili og var einn allra besti leikmaður Dominos deildarinnar. Kári vakti mikla athygli á síðasta tímabili fyrir hver langt hann væri kominn þrátt fyrir ungan aldur og líka hve mikill leiðtogi hann var inná velli. Kári leiddi sóknarleik Haukanna á síðasta tímabili og var með 19,9 stig að meðaltali í leik auk þess að gefa 4,9 stoðsendingar og taka 4,8 fráköst að meðaltali í leik. Kári var stigahæsti íslenski leikmaðurinn á Íslandsmótinu í fyrra og vakti það mikla athygli að hann gekk til liðs við lið Barcelona í vetur sem er eitt besta lið Evrópu. Kári varð deildarmeistari með Haukum á síðasta tímabili og var einnig valinn í lið ársins í Dominos deildinni. Kári byrjaði mjög vel með b liði Barcelona í vetur en meiddist snemma í vor og þurfti að fara í aðgerð en mun byrja aftur af krafti á nýju ári með liði Barcelona.