Kæru Haukarar.
Það var erfiður dagur í gær en í dag er nýr dagur. Það er ljóst að meistaraflokkur karla mun spila í 2. deildinni á næstu leiktíð og það er auðvitað áfall fyrir okkur öll. En þegar maður lendir í áfalli þá reynir auðvitað mest á mann og við höfum svo sannarlega tækifæri til að fara í ákveðna naflaskoðun þar sem okkur bíður spennandi og krefjandi verkefni. Við vorum í basli síðasta sumar og í enn meira basli í ár og það segir okkur að við verðum breyta ákveðnum hlutum til batnaðar.
Árangur beggja meistaraflokkana var undir væntingum og lendum við í nokkrum áföllum bæði karla og kvenna megin sem hafði ýmisleg áhrif. Seinni umferðin hjá meistaraflokki kvenna var frábær þar sem liðið náði 10 sigrum í 11 leikjum. Fjórða sætið staðreynd og nokkur ef og hefði hafa ansi oft komið upp í huga manns. Við eurm í spennandi verkefni sem heldur áfram á næsta ári og markmiðið er ljóst – að spila í efstu deild.
Varðandi leikmannahópana þá erum við með góðan kjarna og ungir og efnilegir leikmenn að koma upp beggja megin. Við erum með frábæra þjálfara í yngri flokkum, höfum verið með gott teymi í meistaraflokki kvenna síðustu tvö tímabil sem við getum byggt ofan á og erum að fara í spennandi vinnu varðandi ráðningu á þjálfara fyrir meistaraflokk karla.
Við erum með öfluga stjórn þar sem um er að ræða kröftuga einstkaklinga með víðtæka og ólíka reynslu. Við ætlum okkur að skerpa á stefnu og sýn knattspyrnudeildar til framtíðar og þar spilar t.d. knattspyrnuhús á Ásvöllum stóran hlut sem mun breyta okkar aðstöðu á stórkostlegan hátt – hugsið ykkur hvað við getum gert þá miðað við alla þá einstkaklinga sem eru að fá tækifæri með yngri landsliðum í dag.
Yngri flokkar Hauka stóðu sig margir hverjir frábærlega í sumar. Má nefna að 5. flokkur kvenna lenti í 2. sæti á TM mótinu í Eyjum sem og á Símamótinu og stóð sig vel í Íslandsmótinu. 3. flokkur kvenna er kominn í fjögurra liða úrslit Íslandsmótsins og spilar úrslitaleikinn í bikarkeppni KSÍ fimmtudaginn 26. september nk. klukkan 18 á Ásvöllum þar sem mótherjinn er Stjarnan/Álftanes. 3. flokkur karla komst í undanúrslit í Íslandsmótinu og 4. og 2. flokkur stóðu sig vel í sumar en bæði lið léku í A riðli Íslandsmótsins.
Stjórn knattspyrnudeildar hefur mikinn metnað fyrir hönd leikmanna, frá meistaraflokki og niður í yngstu iðkendur, og við ætlum okkur einfaldlega að gera betur á öllum sviðum! Haukar eru frábært félag með fjölmarga iðkendur þar sem meistaraflokkar eiga að spila í efstu deild og þangað stefnum við!
Áfram Haukar!
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka