Kristinn Jónasson leikmaður meistaraflokks karla þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Hauka. Kristinn er uppalinn Haukamaður en lék með Fjölni síðastliðið tímabil og kom aftur heim fyrir þetta tímabil.
Kristinn er nýbakaður faðir en hann eignaðist ásamt kærustu sinni Telmu drenginn Kristófer.
Kristinn skoraði 16.8 stig að meðaltali í vetur og reif niður 9,4 fráköst í þeim 12 deildarleikjum en hann missti af nokkrum leikjum í vetur vegna bakmeiðsla.
Heimasíðan setti sig í samband við Kristinn og spurði hann nokkura spurninga um veturinn.
Fyrir tímabilið snýrð þú aftur heim frá Fjölni. Hvernig var að koma aftur á heimaslóðir þó svo að þú hafir einungis verið eitt tímabil í Fjölni?
Það var bara mjög gott að komast aftur heim, dvölin í Fjölni var nokkuð góð en ég kom ekki sáttur þaðan þar sem við féllum ásamt því að ég lauk ekki tímabilinu vegna þrálátra hnémeiðsla í hægra hné. Við komumst þó í bikarúrslit og var það skemmtileg upplifun þó svo að við tókum ekki titilinn. En eftir sem áður var mjög gott að komast heim og fá ást á leiknum aftur, get ekki sagt annað en að ég hafi verið komið með frekar mikla leið á körfubolta eftir tvö tímabil í röð sem einkennast af meiðslum og falli niður um deild.
Þið byrjið tímabilið vel og tapið naumlega á móti Hamri og vinnið Breiðablik í bikarnum kom þess byrjun þér á óvart?
Nei ekki neitt, við vorum og erum með langsterkasta liðið í 1. deild þó svo við komum okkur ekki upp í þetta skipti. Hamar vann okkur á herkænskubrögðum þar sem þeir kunna að nýta heimavöll sinn út í ystu æsar. Það sást greinilega hvort var betra liðið þegar Hamarsmenn mættu á Ásvelli. Varðandi viðureignina gegn Breiðablik þá tel ég þann leik sýna að við ættum alveg að geta leikið í Úrvalsdeild með ágætis árangri þar sem Breiðablik komst ú 8.liða úrslit.
Eftir áramót virðist viðsnúningur verða hjá ykkur sat jólasteikin svona illa í ykkur?
Það held ég ekki, menn voru bara ekki nógu duglegir að æfa um jólin. Það er eitthvað sem þarf að breytast, tala nú ekki um ef liðið ætlar að spila í Úrvalsdeildinni.
Koma Byrd í liðið breytti hún miklu í ykkar spili og þá hvernig?
Já koma Byrd breytti spili okkar nokkuð mikið, en hún var kærkominn þar sem ég fór að finna fyrir meiðslunum sem ég kem að síðar. Byrd er fyrst og fremst frábær náungi og gríðarlega reyndur leikmaður enda hefur hann verið atvinnumaður í kringum 12 ár. Byrd augljóslega hægði svolítið á hraða liðsins sem mér fannst einkennandi fyrir áramót, sem deila má um hvort það hafi hentað liðinu eða ekki. Persónulega fannst mér mjög gott að spila með honum þessa nokkru leiki sem við spiluðum saman. Byrd er með betri varnarmönnum sem ég hef spilað á móti, og að auki hefur virkilega gott auga fyrir sendingum.
Nú á dögunum varðstu faðir hvernig leggst nýja hlutverkið í þig?
Þetta er yndislegt, við feðgarnir vorum að reyndar enda við að glápa á Formulu 1 og highlights úr leikjum næturinnar í NBA. Ekki hægt að kvarta yfir því uppeldi. Ég stefni að sjálfsögðu á að vera besti pabbi í heimi 😉
Hvernig heilsast móður og dreng?
Þeim heilsast báðum mjög vel, Kristófer var smá veikur við fæðingu, en hann hefur keppnisskapið frá mér og rústaði veikindunum. Held samt að hann verði tapsár eins og mamma sín, enda vita allir að ég tek töpum með mjög jöfnu geði.
Ertu komin með lagin á bleijuskiptum og öllu sem þessu fylgir?
Já ég er farinn að geta gert þetta blindandi aftur fyrir bak á hvolfi með einari. Algjör Ofurpabbi ekkert mál.
Nú meiðistu á miðjutímabilinu hver voru þessi meiðsli?
Þetta var svokölluð útbúngun á einum af neðstu hryggjaliðunum, eiginlegt frumstig brjóskloss. Frekar óþægileg meiðsli, og frekar leiðinlegt að meiðast svona þar sem maður hafði aldrei verið í betra formi. ´
Hvað ætlar Kristinn Jónasson að gera af sér í sumar?
Við Vilhjálmur afreksþjálfari og fyrrverandi Haukamaður tókum fyrstu offseason æfinguna í gær. Hún einkenndist af miðsvæðisstyrktar og jafnvægis æfingum ásamt dágóðum skammti af sársauka. Ég geri ráð fyrir því að sumarið verði mest allt þannig þar sem ég þarf að styrkja bakið verulega. Þess á milli verður bara slakað á með konu og barni, enda ekki mikið verið að ráða laganema um þessar mundir.
Nú eru margir ungir leikmenn í liðinu og margir þeirra sem banka fast á dyrnar hver eru þín ráð til þeirra?
Til að byrja með vill ég láta þá vita að þeir komust ítrekað upp með að brjóta nýliðalög nr. 8/2008 þar sem frumvarpið náði ekki í gegn fyrr en að tímabilinu lauk. Lögin taka gildi þann 1. Maí 2009, og munu brot á lögunum varða sektum eða 1. árs framlengingu á nýliðahlutverkinu. Þeir þurfa að vera duglegir að æfa, lyfta og láta berja á sér, þetta kemur allt með kalda vatninu. Þeir eru mjög efnilegir ungu strákarnir okkar og þurfa að halda áfram að bæta sig og safna sjálfstrausti þegar þeir spila með yngri flokkum. Spilatími í meistaraflokk kemur hægt og rólega, en þegar þeir fá sénsinn verða þeir að mæta tilbúnir, egoið í botni og tilbúnir að taka á því.
Hver voru þín markmið fyrir tímabilið? Náðiru einhverjum af þeim markmiðum?
Ég lét þau stóru orð falla að ég ætlaði að sjá til þess að liðið tapaði ekki leik, mér tókst það ekki, en ég læt þau hér með falla aftur fyrir næsta tímabil.
Ef þú lítur um öxl ertu sáttur með tímabilið?
NEI!
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma frá þér?
Ég vona að Stjórn Kkd. Hauka sjái sér fært í að leggja einhvern metnað í að efla og styrkja mfl. karla svo við verðum betur í stakk búnir fyrir IE deildina tímabilið 2010-2011.