Kristófer Jónsson til Vals

Hinn ungi og efnilegi Kristófer Jónsson, fæddur 2003, hefur gengið til liðs við Vals. Kristófer, sem er sóknarsinnaður miðjumaður, var lykil leikmaður í liði Hauka á síðasta tímabili þrátt fyrir ungan aldur og spilaði 20 leiki í deild og skoraði fjögur mörk. Þá á Kristófer að baki 10 leiki fyrir U17 og U16 ára landslið Íslands.

Knattspyrnudeild Hauka óskar Kristófer góðs gengis og velfarnaðar hjá Íslandsmeisturum Vals. Kristófer er einn af fjölmörgum efnilegum iðkendum í barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar Hauka sem leggur ríka áherslu á öflugt fagstarf. Það er von knattspyrnudeildar Hauka að þetta skref Kristófers verði honum gæfuríkt á ferli sem er rétt að byrja.

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka þakkar stjórn og starfsfólki Vals fyrir gott samstarf við þessi félagaskipti.

Kristófer Jónsson
Ljósm. Valur

 

Kristófer í leik með Haukum í sumar.
Ljósm. Hulda Margrét