Nú að lokinn deildarkeppninni í Olísdeild karla tekur úrslitakeppnin við og er það hlutskipti Hafnarfjarðarstórveldana að eigast við en fyrsti leikurinn er annað kvöld, þriðjudagskvöld kl. 19:30 í Kaplakrika. Vinna þarf 2 leiki til að komast í undanúrslit.
Haukar enduðu deildina í 5. sæti en FH í því 4. og því á FH heimaleikjaréttinn í þessum slag. Í vetur hafa þessi lið þrisvar sinnum mæst í fyrsta skiptið í lok september í Krikanum þar sem FH hafði betur 25-24 (13-10). Leikur 2 var í Schenkerhöllinni 20. nóvember og endaði hann með jafntefli 22-22 (13-8). Leikur 3 var svo í Kaplakrika 5. mars þar sem Haukar léku við hvern sinn fingur og gjörsigruðu nágranna sína úr FH 20-33 (7-18). Í þeim leik gekk allt upp hjá okkar mönnum en FH liðið var alveg vindlaust eftir bikarúrslitahelgina þar sem þeir lutu lægra haldi gegn ÍBV í úrslitaleik. Hvað gerist á morgun er ekki gott að spá en liðin hafa endurheimt stórskyttur sínar úr meiðslum, Adam Hauk og Ísak Rafnsson. Það er að minnsta kosti öruggt að bæði lið vilja byrja þessa rimmu á sigri og munu án vafa berjast til síðustu mínútu.
Eins og svo oft áður geta áhorfendur gert gæfumuninn og því skorum við á alla að mæta í Krikann annað kvöld og styðja Hauka til sigurs. Mætum í rauðu.
Leikur 2 verður svo í Schenkerhöllinni fimmtudaginn 9. apríl kl. 19:30 og leikur 3, ef með þarf, í Kaplakrika sunnudaginn 12. apríl kl. 19.30.
Áfram Haukar!