Lengjubikarinn hefst í dag

Fyrirtækjabikar KKÍ hefst á morgun þegar að Haukar mæta Grindavík suður með sjó. Bikarinn hefur nú skipt um styrktaraðila og heitir aftur Lengjubikarinn en undanfarin ár hefur Powerade styrkt keppnina.

Leikurinn hefst kl. 19:15 og í fyrstu umferð spila liðin sem enduðu í 5.-12. sæti í deildinni á síðustu leiktíð. Haukar sem koma úr 1. deild koma sem 12 lið inn í keppnina en Grindavík var með bestan árangur þeirra liða sem féllu úr í 8. liða úrslitunum.

Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka er bjartsýnn fyrir leikinn og segir að ef Haukar ná að spila sem lið þá nái þeir að verða góðir í vetur.

„Haukar eru með ungt og óreynt lið í efstu deild og má því segja að þessi leikur verður góð eldskírn fyrir liðið. Við ætlum að spila sem lið í þessum leik og ef við náum því þá eigum við möguleika á að vera mjög góðir í vetur“.

Haukar misstu sinn öflugasta leikmann á síðustu leiktíð til Grindavíkur en Helgi Björn Einarsson skipti yfir fyrir leiktíðina.

„Grindavík er með eitt besta sóknarlið landsins og skora mikið fyrir utan á sínum heimavelli sem er mjög sterkt vígi“ sagði Pétur og ljóst að ungu liði Hauka bíður ærið verkefni að stöðva skyttur Grindvíkinga í leiknum á morgun.