Það var frábær stemning og góð mæting á lokahófi knattspyrnudeildar Hauka sem var haldið í gærkvöldi í Samkomusal Knattspyrnufélagsins Hauka á Ásvöllum.
Meistaraflokkur kvenna var að sjálfsögðu í sviðsljósinu sem kórónaði frábært sumar með 3-0 sigri á Völsungi fyrr um daginn þar sem liðið tók svo á móti deildarmeistaratitilinum við mikil fagnaðarlæti.
Boðið var upp á framúrskarandi þriggja rétta kvöldverð að hætti Sigþórs Marteinssonar og veislustjórn var í traustum höndum Karls Guðmundssonar.
Knattspyrnukona Hauka er Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir og knattspynukarl Hauka er Ísak Jónsson. Um er að ræða val þar sem leikmaður hefur skarað fram úr. Þar er horft á ýmsa þætti, hvort sem er með framúrskarandi frammistöðu innan sem utan vallar, sem karakter og fyrir vinnusemi, fyrir liðið og knattspyrnudeild Hauka.
Besti leikmaður meistaraflokks kvenna að mati leikmanna er Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir og besti leikmaður meistaraflokks karla að mati leikmanna er Frosti Brynjólfsson.
Efnilegasti leikmaður meistaraflokks kvenna að mati leikmanna er Viktoría Sólveig K. Óðinsdóttir og efnilegasti leikmaður meistaraflokks karla að mati leikmanna er Magnús Ingi Halldórsson.
Þjálfari ársins er Hörður Bjarnar Hallmarsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, en hann sinnir einnig yngri flokka þjálfun hjá knattspynudeild Hauka. Var Hörður ásamt sínu flotta teymi sérstaklega hyllt en með honum í teyminu eru þau Helgi Valur Pálsson, aðstoðarþjálfari, Emil Mæng, styrktarþjálfari, Sigmundur Einar Jónsson, markmannsþjálfari, og Rakel Róbertsdóttir, sjúkraþjálfari.