Eins og fram kom hér á heimasíðunni léku báðir meistaraflokkar Hauka í knattspyrnu leiki á Schenkervellinum á Ásvöllum um helgina. Strákarnir unnu sinn fyrsta sigur í langan tíma þegar þeir lögðu BÍ/Bolungarvík 3-0 og skoruðu þeir Sigurbjörn Hreiðarsson (víti), Magnús Páll Gunnarsson og Alexander Freyr Sindrason mörk Hauka. Leikurinn var virkilega vel spilaður af hálfu okkar manna og var sigurinn sanngjarn eins og tölurnar gefa til kynna.
Stelpurnar léku sinn síðasta leik í deildinni í sumar þegar Sindrastúlkur komu í heimsókn á föstudagskvöld og lauk þeim leik með 1-0 sigri okkar stúlkna þar sem Diljá Helgadóttir skoraði eina mark leiksins átta mínútum fyrir leikslok. Haukastúlkur voru mun sterkari aðilinn í leiknum og þurfti markvörður liðsins til að mynda ekki að verja eitt einasta skot allan leikinn en þau fáu sem gestirnir áttu fóru framhjá markinu. Stelpurnar luku keppni í 6. sæti 1.deildar kvenna A-riðils og leika því áfram í deildinni á næsta ári.