Loksins sigur

HaukarStórlið Hauka-b vann loksins leik í B-deildinni í körfubolta þegar þeir fengu sterkt lið Breiðabliks-b í heimsókn í gærkvöldi.

Leikurinn var hin mesta skemmtun frá upphafi til enda og þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína á Ásvelli til að sjá leikinn fóru ekki heim sárir.

Í jöfnum leik unnu Haukar 87-82 og er þetta er það mesta sem liðið hefur skorað í vetur.

Eftir leik kvöldsins eru Haukar reyndar enn í neðsta sæti síns riðils með fjögur stig en liðið er komið á sigurbraut og aldrei að vita hvað gerist næst.

Næsti leikur strákanna er sunnudaginn 21. febrúar kl. 17.00 á Ásvöllum gegn Stjörnunni-b.

Stig:

Darell 28
Haraldur 13
Róbert 10
Gísli Pétur 10
Jón Hákon 9
Leifur 8
Benedikt 7
Björn 2
Kristinn, Kristinn og Fannar spiluðu en komust ekki á blað.

 

Loksins sigur!

Haukar gerðu góða ferð inn í Garðabæ í dag þar sem drengirnir gerðu sér lítið fyrir og rúlluðu upp frekar slöku liði Stjörnunnar. Þetta er fyrsti sigur liðsins í deildinni síðan 21.maí og fyrsti sigur liðsins undir stjórn Daða Dervic.

Liðið: Jöri; Davíð, Darri, Daníel, Óli Jón; Gummi Magg (skipti við Pétur), Kristján Ómar, Goran (Zoran), Edilon; Arnar Steinn og Ómar Karl (Sævar)

Fyrsti stundarfjórðungur leiksins var einhver sá magnaðasti sem menn hafa upplifað lengi. Á þessu fyrsta korteri litu fjögur mörk dagsins ljós og þar af skoruðu okkar menn þrjú.

Leikurinn var ekki nema níu mínútna gamall þegar Kristján Ómar sendi glæsilega stungusendingu inn fyrir flata vörn heimamanna og Arnar Steinn sem var einn á móti markmanni átti ekki í neinum vandræðum með að klára færið.
Tveimur mínútum síðar kom mark númer tvö. Þar var að verki Gummi Magg með þrumuskoti fyrir utan teig, sem hafnaði í bláhorninu.
Heimamenn vöknuðu aðeins við þetta og sóttu í sig veðrið. Það skilaði marki á 15. mínútu, þar sem varnarvinna okkar mann var ekki upp á mjög marga fiska.
Menn létu markið þó ekki hafa áhrif á sig, heldur skunduðu í sókn og voru búnir að skora þriðja markið mínútu síðar. Þar var að verki Goran eftir glæsilega rispu Arnars Steins upp vinstri kantinn, hann sendi boltann fyrir þar sem Ómar hitti ekki knöttinn sem barst beint fyrir fætur Gorans sem þrumaði honum í netið. Staðan orðin 1-3 og 15 mínútur búnar af leiknum.

Eftir þetta færðist nokkur ró yfir leikinn og lítið gerðist fyrr en á 37. mínútu, þegar Ómar Karl fékk tvö ákjósanleg færi. Í fyrra skiptið átti hann skalla að marki sem bjargað var á marklínu og í seinna skiptið glæsilegt skot sem fór hárfínt framhjá. Staðan í hálfleik 1-3.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega líkt og sá fyrri og eftir tæplega mínútu náðu heimamenn að minnka muninn í eitt mark og virtust ætla að hleypa smá spennu í leikinn.
Skömmu eftir markið fékk Ómar svo eitt besta færi leiksins, slapp inn fyrir vörnina en skot hans fór beint á markmann Stjörnunnar. Ómari virtist fyrirmunað að koma tuðrunni í netið í þessum leik.

En á 56.mínútu gerðu okkar menn útum leikinn. Ómar slapp aftur inn fyrir vörnina, lék á markmanninn og var einn fyrir opnu marki, en öllum að óvörum renndi hann boltanum til hliðar á Arnar Stein sem lagði boltann snyrtilega í markhornið. Staðan orðin 2-4 og okkar menn með öll tök á leiknum.

Haukaliðið bakkaði töluvert eftir fjórða markið og komust heimamenn töluvert meira inn í leikinn og hefðu svo sem alveg getað bætt við marki en vörnin hélt og glæsilegur sigur var tryggður.

Það er óhætt að segja að á löngum köflum í leiknum í dag hafi liðið verið að spila sinn allra besta bolta í sumar. Vonandi er að liðið sé komið á sigurbraut og fari að klifra upp töfluna.

Áfram Haukar!