Magnús Gylfason þjálfari tekinn tali fyrir fyrsta leik tímabilsins gegn Gróttu í Valitor bikarnum

Magnús Gylfason þjálfari mfl. karla í knattspyrnuHvernig hefur undirbúningurinn fyrir tímabilið gengið?
„Hann hefur almennt gengið mjög vel. Ég tók við liðinu 9. mars s.l. og fóru fyrstu vikurnar í að kynnast liðinu og átta mig á samsetningu hópsins. Lokaþátturinn í undirbúningnum var keppnis – og æfingaferð sem farin var til Spánar vikuna fyrir páska. Þarna æfði liðið vel við toppaðstæður og nokkrir leikmenn náðu að vinna sig út meiðslum sem höfðu verið að hrjá þá. Að mínu mati er svona ferð gríðalega mikilvægur þáttur í undirbúningnum, sérstaklega þegar lið eru með nýjan þjálfara, og jafnast á við nokkrar vikur í æfingum á undirbúningstímabilinu hér heima. Í svona ferð eru menn 100% að einbeita sér að fótboltanum, mikið æft og einnig haldnir tæknifundir. Mér fannst liðið taka miklum framförum í ferðinni og ég hef trú á að liðið sé tilbúið fyrir sumarið. Það er góð stemmning í hópnum og all flestir leikmenn eru heilir.“

 Leikurinn í kvöld í Valitor bikarnum gegn Gróttu, hvernig meturðu möguleika okkar í þeim leik?
„Við rennum aðeins blint í sjóinn með þennan leik. Grótta leikur í sömu deild og við og ég tel okkur eiga ágæta möguleika á að vinna þenna leik. Strákarnir eru spenntir fyrir leikinn þar sem þetta er fyrsti alvöru leikurinn á tímabilinu.“

Hver eru markmið liðsins á þessu tímabili?
„Okkur er spáð 5. sæti á fotbolta.net en ég verð að segja að ég renni aðeins blint í sjóinn með þetta. Margir lykilleikmenn hafi farið annað síðan í fyrra og þau skörðu er ekki búið að fylla almennilega. Við munum gefa ungum leikmönnum tækifæri og sem dæmi  um það byrjar einn strákur inn á kvöld sem er fæddur 1994. Eins og staðan er núna finnst mér ekki raunhæft að setja stefnuna á Úrvalsdeildina, að minnsta kosti ekki fyrr en ég hef fengið betri tilfinningu fyrir deildinni og okkar stöðu en ég vil þó segja að lokum að ekkert er ómögulegt í þessum efnum og að sjálfsögðu förum við í alla leiki til að vinna.“