Markvörðurinn Chanté Sherese Sandiford hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Hauka. Chanté sem er 28 ára gömul kemur til félagsins frá norska liðinu Avaldsnes sem lék síðastliðið vor í Meistaradeild Evrópu.
Chanté lék með Selfossi í Pepsí deildinni árin 2015 og 2016. Hún lék svo með Selfossi í 1.deildinni árið 2017 og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í Pepsí deildinni að nýju, ásamt því að bera fyrirliðaband liðsins. Chanté á að baki 62 leiki með Selfyssingum í bæði deild og bikar.
Ásamt því að eiga leiki í Meistaradeild Evrópu með bæði Avaldsnes og rússneska liðinu FK Zorkyi, sem hún lék með á árunum 2012 til 2014, þá er Chanté landsliðsmarkvörður og fyrirliði landsliðs Guyana.
Með komu Chanté til Hauka er félagið að stíga stórt skref í uppbyggingu meistaraflokks kvenna.
Jakob Leó Bjarnason, þjálfari meistaraflokks kvenna, segir að Chanté sé afar öflugur markvörður og mikill leiðtogi. „Með komu Chanté til Hauka erum við ekki einungis að fá frábæran markvörð heldur erum við að eignast mikinn leiðtoga og sterkan karakter sem mun koma til með að hjálpa öðrum leikmönnum að bæta sig, ásamt því að styrkja varnarleik liðsins til muna.“