Knattspyrnudeild Hauka hefur hlotið góðan liðsstyrk þar sem Eva María Jónsdóttir og Theodóra Dís Jónsdóttir hafa gengið til liðs við meistaraflokk kvenna. Báðar koma þær á láni til Hauka.
Eva María sem er sóknarmaður er á 18. aldursári og er uppalin í Val en hún lék 12 leiki með KH í 1. deildinni og Borgunarbikarnum í fyrra og skoraði hún tvö mörk. Þá á hún að baki fjóra leiki með U17 landsliðinu og einn leik með U19.
Theodóra Dís er bakvörður og er á 21. aldursári og er uppalin í Stjörnunni en hún á að baki 29 leiki í meistaraflokki með Stjörnunni og Álftanesi, í Pepsí deild og 1. deild, og hefur skorað þrjú mörk.
Haukar bjóða þær Evu Maríu og Theodóru Dís innilega velkomnar til félagsins.