Það var sannkallaður stórleikur hjá meistaraflokki karla handbolta í gær, sunnudag, þegar að liðið lék gegn Aftureldingu í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins í Schenkerhöllinni. Fyrir leikinn var búist við hörkuleik en liðin mættust líka í síðustu viku í deildinni en þá unnu Haukar 26 – 22 og er það alltaf erfitt að mæta sama liðinu tvo leiki í röð.
Haukamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust þeir í 4 – 0 og svo þegar hálfleikurinn var hálfnaður þá var staðan orðin 10 – 5. Þessi munur hélst svo út hálfleikinn en þegar flautað var til hálfleiks var staðan 18 – 14 Haukum í vil í hálfleik þar sem mikill hraði var í leiknum og mikið skorað.
Gestirnir mættu grimmir til leiks og minnkuðu muninn og eftir um 10 mínútur var munurinn kominn í 1 mark 20 – 19 þá tók Gunnar þjálfari leikhé og talaði við sína menn. Sú ræða hefur vikað vel því Haukamenn tóku við sér á ný og þegar 10 mínútur lifðu leiks var munurinn aftur kominn í 4 mörk 25 – 21 og héldu Haukamenn út leikinn og unnu að lokum 30 – 27 og miðinn í Final 4 tryggður.
Flottur og mikilvægur sigur staðreynd og Haukamenn komnir í Final 4 þriðja árið í röð. Að þessu sinni var það flottur sóknarleikur sem skilaði sigrinum ásamt flottri byrjun sem varð þess valdandi að gestirnir voru alltaf að elta og svo var markvarslan sem fyrr flott.
Markahæstur Haukamanna í leiknum var Janus Daði með 8 mörk og svo á eftir honum kom Adam Haukur með 6 mörk auk þess sem að línumennirnir Heimir Óli og Jón Þorbjörn voru með 4 mörk hvor. Í markinu var Giedrius flottur að vanda og varði hann 43% þeirra skota sem komu á markið.
Eins og fyrr segir eru Haukamenn nú komnir í Final 4 en úrlsita helgin verður leikinn daganna 25. til 27. febrúar. Hinsvegar er næsti leikur strákanna núna á fimmtudaginn þegar þeir heimsækja Víkinga í Víkina kl. 19:30. Áfram Haukar!