Njarðvík – Haukar Dominos deild karla í kvöld í Ljónagryfjunni

EmilMikilvægur leikur í kvöld í Dominos deild karla er Haukar fara Reykjanesbrautina til Njarðvíkur og munu etja kappi við heimamenn í Ljónagryfjunni kl. 19:15.

Haukarnir hafa verið á miklu skriði í síðustu leikjum og hafa unnið 6 leiki í röð, nú síðast útileik á móti Grindavík, þar sem strákarnir sýndu allar sínar bestu hliðar. Haukar geta með sigri tryggt sér fjórða sætið og heimavallarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og því er mikilvægt að fá góðan stuðning í kvöld.

Haukar lögðu Grindavík með 34 stigum í Grindavík á fimmtudaginn og spiluðu gríðarlega vel, jafnt í sókn sem vörn. Fyrirliðinn Emil Barja sýndi snilldartakta á parketinu í þessum leik og skoraði hvorki meira né minna en 35 stig, hitti úr fyrstu 11 skotum sínum í leiknum, þar af 6 þristum í röð. Hann var með ótrúlega 87% skotnýtingu í leiknum. En allt Haukaliðið spilaði vel og voru að hreyfa boltann vel í sókn og finna fría manninn og vörnin var gríðarlega öflug og náðu Grindvíkingar ekki að finna neinar glufur.

Nú þurfa strákarnir að koma vel einbeittir til leiks í kvöld og ná sjöunda sigrinum í röð.