Haukur okkar Óskarsson hélt utan í nótt til að spila með U-18 landsliðinu á EM sem að þessu sinni er haldið í Bosníu. Með sama liði varð Haukur Norðurlandameistari þegar liðið vann Finna í úrslitaleik með glæsibrag en það mót fór fram í Svíþjóð í lok maí.
Í leiknum gegn Finnum skoraði Haukur 14 stig og var næst stigahæsti leikmaður Íslands.
Heimasíðan slóg á þráðinn til Hauks og tók aðeins púls á honum fyrir komandi átök í Bosníu og almennt um lífið og tilveruna
Mynd: Haukur Óskarsson er á leið til Bosníu – Snorri Örn Arnaldsson
Haukur varð Norðurlandameistari í annað sinn nú síðast og sagði hann í samtali við heimasíðuna að hann hafi fyllst miklu stolti að taka á móti verðlaunum af þessari stærðargráðu fyrir Íslands hönd. „Tilfinningin er virkilega góð sérstaklega þegar maður gerir það í annað sinn en vonandi nær maður að krækja í stærri titil bráðlega.”
Haukur varð eins og segir næst stigahæsti leikmaður liðsin í sigrinum á Finnum eftir að hafa komið inn af bekknum. Það lá því beinast við að spyrja Hauk af því hvort stefnan væri ekki sett á byrjunarliðssæti. „Ég tek bara mínu hlutverki í þessu liði með bros á vör. Ég held nú að allir setji sér markmið að komast í byrjunarlið en þó svo að ég komist ekki í það þá er ég mjög sáttur með minn þátt í liðinu”
„Við stefnum hátt í öllu sem við gerum en hugsum um einn leik í einu. Það hefur virkað vel hingað til” sagði Haukur þegar hann var spurður út í markmið liðsins fyrir mótið og er greinilegt að þetta markmið hefur skilað liðinu fínum árangri hingað til.
Ísland er í riðli með Svíum, Finnum, Póllandi og Slóvakíu og að sögn Hauks er þetta rosalegur riðill.„Við vitum gott sem ekkert um Slóvakíu en í Póllandi eru virkilega góður bakvörður og þeir sigruðu þennan riðil fyrir tveimur árum. Við unnum Finnana í úrslitum í ár, rétt töpuðum fyrir Svíum en unnum þá í úrslitum 2007 þannig að þetta er hörku riðill.”
Það var ekki hægt að sleppa Hauki úr viðtali fyrr en hann segði okkur hvernig honum litist á þá mynd sem er að komast á Haukaliðið fyrir komandi tímabil en nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu
„Því miður hef ég svo lítið getað fylgst með því sem er í gangi að ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta verður bara allt að koma í ljós” sagði Haukur og bætti við að lokum „ÁFRAM ÍSLAND”