Aðalfundur knattspyrnudeildar Hauka var haldinn í gær á Ásvöllum þar sem ný stjórn var kjörin. Halldór Jón Garðarsson, formaður deildarinnar sem var endurkjörinn á fundinum, fór yfir síðasta starfsár, og Karl Guðmundsson, gjaldkeri, fór yfir rekstur.
- Fjöldi kvenna eykst í stjórn
- Þjálfarar brugðust vel við COVID-19 með #haukarextra
- Ný námsskrá knattspyrnudeildar
- Aukin samlegðaráhrif í þjálfun
- Styttist í knatthús á Ásvöllum – Bæjaryfirvöld horfa til framtíðar
- Markmiðið að berjast um sæti í sterkari deildum
- Fjölga þarf tekjuleiðum og sjálfboðaliðum
- Reksturinn í jafnvægi og engar skuldir
Ný í stjórn koma þau Elísabet Finnbogadóttir og Haukur Jónsson. Auk fyrrgreindra eru í stjórninni Jón Björn Skúlason, varaformaður, Helga Helgadóttir, ritari, Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráðs karla, Oddný Sófusdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna, Brynjar Viggósson, formaður BUR karla, Þórdís Rúriksdóttir, formaður BUR kvenna, Ellert Ingi Hafsteinsson, Gísli Aðalsteinsson og Guðmundur St. Sigurðsson, meðstjórnendur.
Í máli formanns kom m.a. fram að iðkendur hafi verið á sjötta hundrað og í heildina hafi sumarið gengið ágætlega þrátt fyrir ýmis áföll tengd COVID-19 en þó hafi þjálfarar deildarinnar brugðist vel við með heimaæfingum með átakinu #haukarextra
Eitt af stórum verkefnum síðasta árs var mótun nýrrar námsskrár knattspyrnudeildar sem spannar þjálfun frá 8. flokk og upp í meistaraflokka deildarinnar, sem Igor Kostic, skólastjóri Afreksskólans, og Helga Helgadóttir, yfirþjálfari knattspyrnudeildar, höfðu veg og vanda af. Þá tók knattspyrnudeildin yfir umjsón Afreksskólans og Afrekssviðsins sem eykur samlegðaráhrif hvað aðra þjálfun innan deildarinnar varðar. Þá fékk töluverður fjöldi yngri leikmanna tækifæri á úrtaksæfingum yngri landsliða sem er ákveðin viðurkenning á barna- unglingastarfi knattspyrnudeildar Hauka.
Eins og tilkynnt var um á dögunum samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðarbæjar þann 10. febrúar sl. að fela umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út annars vegar hönnun á knatthúsi á Ásvöllum og hins vegar að vinna útboðsgögn vegna grasvalla á athafnasvæði Hauka sem er gríðarlega mikið fagnaðarefni og sýnir að bæjaryfirvöld horfa til framtíðar í samstarfi við Hauka.
Varðandi meistaraflokka knattspyrnudeildar þá hafnaði meistaraflokkur kvenna í 3. sæti Lengjudeildarinnar og meistaraflokkur karla í 5. sæti 2. deildar en markmiðið fyrir komandi tímabil er að meistaraflokkur karla og kvenna berjist um að komast upp í annars vegar Lengjudeild karla og hins vegar Pepsí Max deild kvenna.
Þá þurfi að fjölga tekjuleiðum og samstarfs- og styrktaraðilum deildarinnar til þess að efla annars vegar barna- og unglingastarfið enn frekar og hins vegar til að treysta tekjugrundvöll meistaraflokka deildarinnar. Einnig þarf að fjölga sjálfboðaliðum sem koma að annars vegar einstökum verkefnum og hins vegar að heimaleikjum meistaraflokka sem og að efla enn frekar skipulag og sjálfbærni knattspyrnudeildar sem ný stjórn mun móta.
Í máli gjaldkera deildairnnar fækkaði öflugum styrktaraðilum á síðasta ári sem rekja má beint til COVID-19 sem skapaði verulegan tekjusamdrátt. Með styrkjum frá KSÍ og ÍSÍ, sölu á leikmönnum og ákveðnum fjáröflunum auk töluverðra aðhaldsaðgerða í rekstri náðist að standa við allar launaskuldbindingar varðandi meistaraflokka fyrir síðasta ár ásamt því að rekstur barna- og unglingastarfsins er í ágætum farvegi. Engu að síður er reksturinn almennt í járnum, m.a. vegna fækkunar á öflugum samstarfs- og styrktaraðilum. Með fjölgun iðkenda, m.a. með tilkomu knatthúss, mun rekstur barna- og unglingastarfsins verða enn traustari.