Um liðna helgi fögnuðu Haukar vígslu nýs knatthúss félagsins. Eftirvæntingu, gleði og fögnuð mátti sjá á viðbrögðum þeirra fjölmörgu sem voru viðstaddir á þessum merka degi í sögu Hauka. Magnús Gunnarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Hauka bauð vígslugesti velkomna, greindi frá upphaflegum hugmyndum um byggingu knatthússins sem og framkvæmdum við bygginguna. Þá þakkaði hann öllum þeim sem komu að byggingu þessa glæsilega mannvirkis. Arnór Bjarki Blomsterberg, sóknarprestur í Ástjarnarkirkju, flutti ávarp og húsblessun, Rósa Guðbjartsdóttir, fv. bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og þingmaður, flutti ávarp og óskaði Haukum til hamingju með glæsilegt mannvirki. Már Sigurðsson frá ÍAV ávarpaði samkomuna fyrir hönd byggingaraðila hússins og afhenti síðan bæjarstjóra lykil að húsinu með táknrænum hætti. Valdimar, bæjarstjóri, fagnaði þessum mikla áfanga og óskaði Haukum innilega til hamingju með knatthúsið. Bæjarstjóri og formaður Hauka undirrituðu síðan samning um rekstur knatthússins, en Haukar munu sjá um rekstur hússins. Að endingu flutti svo Brynjar Viggósson, formaður knattspyrnudeildar Hauka stutt ávarp.
Lengi hefur verið beðið eftir bættri aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun á Ásvöllum og með tilkomu knatthússins hafa þeir draumar ræst. Glæsilegt knatthús Hauka verður gríðarleg lyftistöng fyrir okkar knattspyrnufólk og félagið allt. Framtíðin er björt.
Áfram Haukar.