Handknattleiksdeild Hauka hefur samið við markvörðinn Ólöfu Maren Bjarnadóttur til næstu tveggja ára. Ólöf kemur til liðs við Hauka frá uppeldisfélagi sínu KA/Þór en þar hefur hún fengið smjörþefinn af Olísdeild kvenna og lék 6 leiki með þeim í deildarkeppninni þetta tímabilið.
Ólöf sem er 19 ára hefur undafarið verið í U-19 ára landsliðshóp Íslands og nú síðast var hún valin í lokahóp landsliðsins fyrir verkefni sumarsins. Hún mun því passa vel inn í hið unga og efnilega Haukalið og er Ólöf enn einn ungi leikmaðurinn sem skrifar undir samning við félagið.
Haukar bjóða Ólöfu velkomna á Ásvelli og hlakka til að sjá hana í Haukabúningnum í haust.