Pétur: Ætluðum okkur meira

 

Haukar hafa lokið þátttöku í Lengjubikarnum þetta árið en liðið hafnaði í neðsta sæti í A-riðli. Haukar léku með Grindavík, Keflavík og Skallagrími í riðli og var spilað heima og heiman. Aðeins einn sigur vannst og það gegn Skallagrími í Schenker-höllinni en liðið spilaði einmitt síðast leikinn í mótinu gegn þeim á sunnudag í Borgarnesi.

Heimasíðan heyrði í Pétri Guðmundssyni, þjálfara, og spurði hann aðeins út í keppnina en Pétur er almennt sáttur með fyrirkomulag keppninnar en er að vonum svekktur yfir gengi liðsins.

„Það eru vonbrigði á þeim formerkjum að við ætluðum okkur meira en við lentum í meiðslum með lykilmenn,“ sagði Pétur um gengi liðsins í keppninni og bætti við: „Við erum með mjög góða leikmenn sem er alveg á pari við úrvalsdeildarleikmenn en við höfum ekki efni á að missa byrjunarliðsmenn út í þeim leikjum þar sem tveir atvinnuleikmenn eru í hinu liðinu.“

Þessi keppni, Lengjubikarinn, hefur verið nokkuð á milli tannanna á fólki þar sem  fyrirkomulag er gagnrýnt og liðin talin ekki taka þetta af jafn mikilli alvöru eins og aðrar keppnir á vegum KKÍ og því erfitt að bera sig saman við þau sem spila í efstu deild. 

Aðspurður segir Pétur að hann sé heilt yfir sáttur með fyrirkomulagið og samanburður við úrvalsdeildarliðin sé alveg marktækur.

„Þessi samanburður er alveg marktækur. Við t.d. spiluðum við Borganes þar sem þeir hvíldu einn atvinnumanninn sinn og við vorum með tvo byrjunarliðsmenn í meiðslum en við unnum leikinn. Það sýnir alveg hvar við stöndum gagnvart úrvalsdeildarliðunum. Auðvitað skekkir það myndina fyrir áhorfendur ef leikmenn eru hvíldir en þú sem þjálfari og leikmaður áttar þig alveg á hvar við stöndum gagnvart úrvalsdeildarliðunum.“

„Ég er sáttur við fyrirkomulagið, ég vil að þetta mót sé spilað inn í deildarkeppnina en það mætti lengja þetta alveg inn í desember mánuð og hafa þetta þannig að það sé ekki spilað allar vikur tvö leiki í viku. Það er það eina sem ég mundi vilja breyta. Það gefur liðum tíma til að ná áttum ef að illa gengur og til að æfa betur það sem betur má fara. En annars er ég mjög sáttur við þetta fyrirkomulag,“ sagði Pétur um fyrirkomulag deildarinnar.

„Hin fjögur fræknu“ mætast í undanúrslitum næstkomandi föstudag í Stykkishólmi þegar sigurvegarar riðlana mætast í undanúrslitum. Tindastóll mætir Þór Þorlákshöfn kl. 18:30 og Snæfell og Grindavík spila hina viðureignina kl. 20:30. Úrslitin fara svo fram á laugardaginn kl. 16:00.

Þess má geta að allir leikirnir verða sýndir á beint á SportTV, samstarfsaðila Haukar TV.