Pétur: Mikilvægt fyrir mitt lið að vinna

Haukar náðu í sigur í fyrsta leik á þessu tímabili þegar að Skallagrímsmenn komu í heimsókn í gær. Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka var ánægður með leik sinna manna og var augljóst á tali Péturs að Haukar ætla sér stóra hluti á þessum vetri.

Mynd: stefan@haukar.is

„Þeir eru með hörkulið og það kom okkur kannski svolítið á óvart að það væri þarna nýr erlendur leikmaður. Tota var góður sem og Hafþór og svo þessir ungu strákar eru bara drullugóðir. Ég held að það sé mikilvægt fyrir mitt lið að vinna og þá förum við kannski í þetta með sjálfstraustið í botni í næsta leik í staðinn ef við hefðum tapað þá hefðu allir farið að efast. Þannig að ég var bara ánægður með þennan sigur og strákarnir stóðu sig vel” sagði Pétur þegar hann var spurður út í leikinn.

Pétur keyrði á öllum leikmönnum og þarna eru strákar sem voru að fá góðar mínútur sem spiluðu lítið í fyrra. Pétur sagði að honum hafi litist vel á þessa pjakka en fáar mínútur segi honum lítið.

„Mér leist bara vel á alla og fjórar til fimm mínútur í svona leik segir mér ekki neitt. Þetta er langhlaup ekki spretthlaup og þeir stóðu sig vel í þessu spretthlaupi. Menn komu inn á og stóðu sig allir vel. Ég var sérstaklega ánægður með Sævar, hann kom inn í þetta eftir eina æfingu en spilaði eins og hann hefði allavega mætt á tvær í viðbót” sagði glottandi Pétur að lokum.