Reykjanes þrenna – Njarðvík lagt með yfirburðum í kvöld

Njarðvík komu í heimsókn í kvöld og voru þær þriðja liðið sem Haukar mæta af Reykjanesinu í undanförnum þremur leikjum. Allt sigrar og Njarðvík fékk stærstann skellinn, 29 stiga munur, 86-57.

Mögnuð byrjun á leiknum þar sem Njarðvík voru keyrðar í kaf 21-6 og svo kláruðu þær leikinn með stæl með því að vinna fjórða leikhlutann 25-13. 

Frákasta yfirburðir og góð skotnýting komu í veg fyrir að Haukum yrði refsað fyrir gríðarlegt magn af töpuðum boltum. Lele Hardy var stelpunum erfið í sendingunum og stal boltanum af þeim 12 sinnum.

Siarre Evans fór fyrir okkar liði að vanda með magnaðan leik og leyfði þristunum að rigna líkt og á móti Keflavík. Gunnhildur átti góðan leik með 14 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar þrátt fyrir að hafa aðeins getað leikið tæpar 20 mínútur sökum villuvandræða. Stóru leikmennirnir okkar stóðu sig líka allar með prýði, María Lind var með tvöfalda tvennu, 10 stig og 10 fráköst, Dagbjört var með 9 stig og 3 fráköst og Jóhanna Björk var með 8 stig og 6 fráköst. 

Auður var hörku nagli að vanda og var með 7 fráköst, og þar af 4 sóknarfráköst, ásamt 4 stigum sem hún skoraði öll í fjórða leikhlutanum. Margrét Rósa hafði hægt um sig í sókninni en stóð sig vel í leiknum, hún var með 4 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.

Ungu leikmennirnir fengu að spreyta sig og áttu góða innkomu. Sólrún fékk 10 mínútur og skoraði 6 stig, Ína var með 4 stig, frákast og stolinn bolta á 4 mínútum og Aldís Braga var með 2 fráköst og stoðsendingu á 1:45.

Inga og Þóra þið voruð líka flottar. 

Nánari umfjöllun um leikinn á Karfan.is