Sævar snýr í heimahaga

Bakvörðurinn Sævar Ingi Haraldsson hefur ákveðið að snúa á æskuslóðirnar og mun leika með Haukum í 1. deild karla í vetur. Er þetta flottur liðsstyrkur en Sævar spilaði síðast með Haukum tímabilið 2006-2007 í IE-deildinni.

Sævar gekk til liðs við Stjörnuna í Garðabæ frá Haukum og spilaði með þeim eitt tímabil en hélt svo út til Bandaríkjanna í nám. Hann kom heim í sumar og hefur æft með Stjörnuliðinu síðan.

Mynd: Sævar Haraldsson er genginn til liðs við Hauka á ný – emil@haukar.is

Sævar segir að ástæða þess að hann ákvað að skipta í Hauka sé sú að Haukahjartað hafi farið að slá örar og örar.

„Ég er og hef alltaf verið Haukamaður enda uppalinn hérna og það má segja að Haukahjartað hafi verið farið að slá örar og örar.”

„Mér líst vel á Haukaliðið þetta eru ungir og flottir strákar og með flottan þjálfara og ég held að þessi hópur eigi eftir að ná langt” sagði Sævar þegar hann var spurður út í hvernig honum litist á hópinn.

Sævar var með 5,8 stig og 4,5 stoðsendingar tímabilið 2007-2008 í IE-deildinni.

Sterkar líkur eru á því að hann verði með Haukum á morgun sem taka á móti Skallagrími á Ásvöllum kl. 19:15