Súrt tap eftir framlengingu

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna í körfu mættu fyrr í kvöld liði Hamars í IE-deild kvenna. Hamar hefur ekki tapað leik í deildinni og tróna á toppi deildarinnar en Haukar sitja í 4. sæti deildarinnar. Grípa þurfti til framlengingar til að knýgja fram sigur og að lokum fóru gestirnir úr Blómabænum með stigin tvö heim í Hveragerði eftir átta stiga sigur 73-81.

Haukar byrjuðu mun betur og leiddu allan fyrri hálfleik. Var munurinn á liðunum fjórum stigum í hálfleik, 35-31. Hamarsstúlkur komu snældu vitlausar til leiks í seinni hálfleik og náðu í þriðja leikhluta 17 stiga forystu. Með harðfylgi náðu Haukar að minnka muninn og jöfnuðu leikinn á endanum með fallegri þriggjastiga körfu frá Guðrúnu Ámundadóttur.

Í framlengingunni náðu Haukar ekki að fylgja eftir sterkum spretti sínum í fjórða leikhluta og unnu Hamarsstúlkur á endanum eftir að hafa eitt mestum tíma framlengingarinnar á vítalínunni.

Haukar halda sæti sínu í deildinni eða fjórða sæti.

Katie Snodgrass var stigahæst Hauka með 26 stig og 12 fráköst og næst henni var Íris Sverrisdóttir með 17 stig.