- Haukar í horni og grillið frá klukkan 12
- Sara spjallar við yngri iðkendur klukkan 13
- Origo býður frítt á leikinn klukkan 14
Knattspyrnufélagið Haukar hefur ákveðið að veita Söru Björk Gunnarsdóttir Silfurstjörnu Hauka í tilefni af því að hún var valin Íþróttamaður ársins 2018. Sara verður heiðursgestur á leik Hauka og Þróttar R. í Inkasso deild kvenna á sunnudaginn sem hefst klukkan 14.00 og verður henni veitt Silfurstjarnan áður en flautað verður til leiks.
Í tilefni dagsins mun Origo bjóða stuðningsmönnum beggja liða frítt á leikinn og grillið verður opnað klukkan 12 þar sem hægt verður að fá sér ljúffengan hamborgara að hætti grillteymis þeirra Pálma og Símons.
Klukkan 13 mun Sara Björk hitta yngri iðkendur í knattspyrnudeild Hauka þar sem hún mun spjalla um leið sína í atvinnumennsku sem er frábært tækifæri til að fá alvöru innblástur um hvað ber að hafa í huga til að ná árangri.
Sara hóf knattspyrnuferil sinn hjá Haukum og var hún einungis 13 ára gömul þegar hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið okkar. Hún á að baki 23 leiki fyrir meistaraflokk Hauka og skoraði hún í þeim 18 mörk. Það var öllum ljóst að hún var gríðarlegt efni og hefur hún margsannað sig sem fyrirmyndar íþróttamann bæði innan vallar sem utan.
Hún fór til Breiðabliks á miðju tímabili 2008 og lék með Kópavogsliðinu í tvö og hálft ár. Þaðan lá leiðin til Svíþjóðar þar sem Sara lék í fimm og hálft ár með Malmö, sem á miðri dvöl hennar þar skipti um nafn og varð að Rosengård. Þar vann hún sænska meistaratitilinn fjórum sinnum.
Sara gekk til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg sumarið 2016 og hefur hún unnið þýska meistaratitiinn og bikarmeistaratitilinn öll tímabilin með félaginu.
Sara hefur verið fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins síðustu ár.
Hauka-fjölskyldan er afar stolt af Söru Björk og er hún svo sannarlega mikil fyrirmynd fyrir unga iðkendur félagsins.